Það er gaman að baka pizzu og móta hana að vild með öllu því sem manni þykir gott. Ef menn nenna ekki eða hafa ekki tíma til að gera deigið sjálfir er hægt að kaupa ágætis tilbúin deig í flestum búðum en svo er auðvitað hægt að taka þett frá a til ö.
Uppskriftin dugar í tvær stórar pizzur.
Hitið 3 dl af vatni/mjólk ( fljótlegast að gera í örbylgjunni – ekki segja neinum) þannig að það verði vel volgt. Bætið út í rúmlega hálfu bréfi af þurrgeri, matskeið af hunangi eða agave-sírópi, klípu af sjávarsalti og skvettu af olíu, hrærið vel saman. Auðvitað er líka hægt – og betra – að nota pressuger. Hvort gerið sem er notað er mikilvægt að leysa það vel upp í vökvanum. Látið standa í nokkrar mínútur.
Setjið 6-7 dl af hveiti í skál. Gott er að nota venjulegt hveiti og fínmalað spelt nokkurn veginn til helminga. Eða Farro-hveiti ef þið viljið virkilega ítalska stemmningu.
Blandið gerblöndunni saman við hveitið og látið deigið lyfta sér í a.m.k. rúman hálftíma á volgum stað.
Setjið smá hveiti saman við deigið og hnoðið það vel. Það á verða teygjanlegt og auðvelt meðferðar, þannig að maður geti nánast togað það og teygt að vild. Fletjið út. Mótið deigið á plötuna sem þið ætlið að nota. Það er tilvalið að nota pizzuskera ef þarf að skera deigið til – til dæmis til að gera það hringlaga.
Raðið álegginu á pizzuna.
Setjið neðarlega inn í heitan ofninn, á hæsta mögulega hitastig, um 250 gráður eða- sem er miklu betra – á grillið þar sem þið náið 300-400 gráða hita.
Til að ná stökkri og fínni pizzu er best að nota svokallaðan pizzastein. Þá er hægt að fá (t.d. Weber Pizza Stone) í grilldeildum margra verslana. Það er best að nota hann á grilli og hita þá vel upp áður en platan með pizzunni er sett á steininn. Steinninn gefur frábæran undirhita auk þess sem meiri hiti næst á góðu grilli en í ofni. Það er hins vegar einnig hægt að nota pizzastein í ofni. Hann þarf hins vegar að hitna vel inni í ofninum áður en bökunarplatan með pizzunni er sett ofan á hann.
Bakið þar til pizzan er orðin stökk og osturinn hefur bráðnað.
Hér eru pizzurnar okkar. Stöðugt bætist í safnið.
PIzza með beikoni, fetaosti og klettasalati
Pizza með gráðaosti, rósmarín og sultuðum lauk
Pizza með nautahakki og þremur ostum
Pizza með pepperoni og piparosti
Pizza með kjúkling, kryddjurtum og sólþurrkuðum tómötum
Pizza með humar og bökuðum hvítlauk
Pizza með feta, spínati, beikoni og pestó úr sólþurrkuðum tómötum
Pizza með Prosciutto og Portobello
Pizza með Chorizo og sólþurrkuðum tómötum
Pizza með Prosciutto og geitaosti
Pizza með kjúklingi fetaosti og beikoni
Pizza með fíkjum og sultuðum lauk
Pizza með hakki og kirsuberjatómötum
Pizza með risarækjum og klettasalati
Pizza með beikoni, papriku og rjómaosti
Pizza með valhnetum og fetaosti