Haukur bloggar: To Øl Snowball Saison

Það var ekki að ástæðulausu að þessi bjór var kosinn sá besti í ár hjá okkur á Vínótekinu. Honum tekst á einstakan hátt að brjóta upp hefðina en að halda sig samt við að vera jólalegur.

Það sem gerir þennan bjór einstakan í jólabjórsflóruna er hversu ólíkur hann er öðrum jólabjórum. Flestir íslenskir jólabjórar hafa í gegnum tíðina oftast verið lagerbjórar í svokölluðum “Vienna” stíl, rauðbrúnir bjórar þar sem maltið er í aðalhlutverki.

To Øl Snowball Saison fer í hina áttina og er belgískt öl, svokallaður “Saison”, sem fer út fyrir hinn hefðbundna “Saison” ramma þar sem hann er frekar hár í áfengi. Upprunalega var Saison ætlaður til að svala verkamönnum í sumarhitanum í flæmska hluta Belgíu. Hér á Íslandi var framleiddur í haust gríðarlega góður Saison sem hét Skaði og var til umfjöllunar hér á VínotekinuS þar sem stiklað var á stóru í sögu Saison stílsins.

To Øl Snowball Saison brýtur upp jólahefðirnar sem einkennast oft af þungum og miklum mat. Við slíkar aðstæður eru maltmiklir lagerbjórar frekar fráhrindandi.

To Øl Snowball Saison er svalandi en jafnframt er hann „stór“bjór. Honum tekst að fanga jólin með keim af mandarínum og kryddi og á tungu er hann þurr og flókinn. Í lokinn fylgja svo humlar eftir og gefa örlítinn biturleika til að skapa flott jafnvægi í bjórnum. Þetta er frábær bjór sem auðvelt er að drekka og kemur manni í sannkallað jólaskap.

Deila.