Mjólkureldað grísakjöt með pasta

Grísakjöt eldað i mjólk er einn af hinum dæmigerðu réttum Norður-Ítalíu. Stundum er kjötið eldað og skorið niður. Hér maukeldum við það og breytum mjólkursoðinu í unaðslega pastasósu sem að langelduðu grísakjötinu er blandað saman við. Það er hægt að nota stórt hnakkastykki, hryggjarstykki eða bóg á beini.

Um það bil 1 kíló svínakjöt á beini  þarf í uppskriftina og það er gott að nota tagliatella eða linguini pasta. En þar fyrir utan þarf:

  • 2 lítrar mjólk
  • 4-6 hvítlauksgeirar
  • 2 skalottulaukar
  • nokkrir timjanstönglar
  • 2 lárviðarlauf
  • 1 rósmarínstöngull
  • salt og pipar

Skerið skalottulaukana í sneiðar. Kremjið hvítlauksgeirana með hnífsblaði. Setjið  í þykkan pott (pottjárnspott ef þið eigið) ásamt mjólkinni, lárviðarlaufum, timjanstönglunum og rósmarín.

Saltið og piprið kjötstykkið. Setjið í pottinn þegar að suðan kemur upp. Lækkið hitann og setjið lok á. Leyfið að malla í klukkustund. Snúið þá kjötbitanum við og látið malla í aðra klukkustund. Takið lokið af og hækkið hitann. Eftir korter er kjötbitinn tekinn upp úr.

Leyfið mjólkinni að sjóða niður á meðan að kjötibitinn kólnar aðeins. (hér er gott að byrja að hita vatnið fyrir pastað).

Þegar kjötið hefur kólnað nægilega mikið til að hægt sé að handfjatla það er kjötið hreinsað af beininu. Það er mjög þægilegt að nota tvo gaffla og skrap það frá í litlar tægjur. Skiljið beinið frá og fituna.

Þegar mjólkin í pottinum hefur soðið nægilega niður og er orðinn þykk og kekkjótt (ekki sjóða of mikið niður – þið þurfið smá magn af sósu)  eru timjanstönglarnir og lárviðarlaufin veidd upp úr. Nú þarf að mauka sósuna. Þá breytist hún úr því að vera kekkjótt yfir í mjúka og fina sósu. Það er best að gera það með töfrasprota í pottinum. Það er líka hægt að setja hana í matvinnsluvél og svo aftur í pottinn.

Þegar pastað er soðið er því blandað saman við sósuna ásamt kjötinu. Saltið og piprið eins og þarf.

Hér þarf kröftugt norður-ítalskt rauðvín, t.d. Tommasi Rafael Valpolicella Superiore

Deila.