Hildigunnur bloggar – Uxahalasúpa

Er ekki kominn tími á eitthvað ódýrt svona eftir hátíðarnar? Þessi súpa er ágætis tilbreyting við venjulega íslenska kjötsúpu og hreint ekki verri. Uxahalar fást í Kolaportinu á fínu verði.

1 1/2 kíló uxahalar (eða einn til tveir heilir halar, teknir sundur á liðunum)
2 laukar
2-3 hvítlauksrif
2 gulrætur
1/2 sellerístöngull
50 g smjör eða olía
um 2 l vatn
1 msk tómatkraftur (purée). Gefur dýpt í súpuna.
1 tsk paprikukrydd
salt og pipar

Kryddvöndur:

hálft búnt steinselja
timjan (ef ekki til ferskt má nota þurrkað)
1-2 lárviðarlauf (eftir stærð)
bundið saman með sláturgarni

Gróffituhreinsið halabitana ef þeir eru mjög feitir. Hakkið laukana og hvítlaukinn smátt og skerið gulrætur og sellerí í fremur litla bita. Hitið smjörið eða olíuna í þykkbotna potti og brúnið kjötbitana á öllum hliðum. Takið upp úr pottinum og steikið laukinn þar til hann er gullinn, setjið þá hvítlauk, gulrætur og sellerí saman við og steikið í smástund í viðbót. Kjötbitarnir settir aftur í pottinn, kryddað með salti, pipar og papriku. Hellið vatni í pottinn svo fljóti yfir, setjið tómatkraft og kryddjurtir saman við. Hitið að suðu, hreinsið aðeins ofan af gromsið sem flýtur upp, lækkið hitann og látið súpuna malla í um 4 klukkutíma. Kjötið á að falla alveg af beinunum.

Smakkið til með salti, pipar og víni ef vill og látið sjóða í 10 mínútur til (ef þið notið vín)

Takið kjötbitana úr pottinum og hreinsið kjötið af beinunum, setjið það aftur í pottinn. Hitið aftur að suðu og berið fram sjóðheita. Ekki er verra að hafa heitt brauð með.

Deila.