Vina Maipo Vitral Chardonnay 2013

Chile virðist geta framleitt endalaust af tæknilega vel útfærðum og heillandi vínum sem kosta ekki skildinginn. Og því kannski ekki að undra að það eru einmitt Chile-vín  sem að Íslendingar sækja hvað mest í  þessi misserin.

Vitral Chardonnay frá Vina Maipo er hvítvín frá Casablanca-dalnum, einu helst hvítvínshéraði Chile þar sem kalt loft frá Kyrrahafinu læðist yfir á nóttunni og kælir vínviðinn eftir sólbakstur dagsins. Það eru einmitt kjöraðstæður til framleiðslu á ferskum og ávaxtaríkum hvítvínum.

Þetta er dæmigerður Nýjaheims-Chardonnay. Suðrænn, sætur ávöxtur í nefi, ananas, bananar, ferskjur, þroskaður sítrus og örlítill vanillusykur, sem rekja má til eikarinnar. Mjúkt og svolítið feitt í munni, mild og góð sýra. Afskaplega notalegt sumarvín.

1.899 krónur. Frábær kaup á því verði sem tryggir víninu fjórðu stjörnuna.

Deila.