Pizzasnúðar

Pizzasnúðar hafa verið vinsælir í nestið hjá börnum á öllum aldri eða þá bara til að gæða sér á nýbökuðum á góðum degi, nota í barnaafmæli eða saumaklúbbinn. Og það er auðvitað langbest og einfaldast að baka sína eigin snúða og rétt eins og með pizzurnar er hægt að leika sér með „áleggið“ á margvíslega vegu. Þessi uppskrift er klassísk og þið notið uppáhaldspizzasósuna ykkar.

  • 600 grömm hveiti
  • 1/2 bréf þurrger
  • 1/2 tsk salt
  • 1/4 tsk sykur
  • 2 dl vatn
  • 2 dl mjólk
  • 50 grömm smjör

Það er hægt að gera þessa snúðadeigið í hrærivél og þá má líka bara hnoða það saman. Ég notaði hrætivél.

Hitið vatn og mjólk upp að  um það bil 25 gráðum (ég nota ekki með hitamæli,hafið vatnið bara þægilega lvolgt). Blandið öllum þurrefnum saman ásamt vatninu og mjólkinni. Geymið smjörið þangað til síðast. Hrærið öllu nema smjörinu  saman í cirka 10 mínútur á meðalhraða. Skerið smjörið í smáteninga og setjið út í og hrærið í cirka 10 mínútur eða þangað til smjörið hefur samlagast deiginu.

Leyfið deiginu að lyfta sér í um klukkustund eða þar til það hefur tvöfaldast.

Skiptið deiginu í tvennt og fletjið út í tvo ferhyrninga. Smyrjið með pizzasósu. Það má líka nota kjötsósu (bolognese) eða pestó eða það sem ykkur dettur í hug. Stráið vel ef rifnum osti yfir og rúllið ferhyrningunum upp í rúllu. Skerið niður í snúða. Hver rúlla ætti að gefa af sér um 12-15 snúða.

Bakið í ofni við 225 gráður í um 15 mínútur.

Það er tilvalið að frysta snúða. Leyfið þeim að þiðna eftir að þið takið þá úr frysti og hitið upp í ofni í um fimm mínútur.

Deila.