Jólavínin 2014

Það er á þessum tíma árs sem að við leggjum hvað mest upp úr því að velja góð vín með matnum. Jólavínði skiptir miklu máli, rétt eins og jólamaturinn en það er líka fjölmargar áskoranir sem að matarsametningar jólahátíðanna bjóða upp á fyrir vínin.

Hérna eru okkar tillögur að spennandi jólavínum þetta árið, byggt á þeim vínum sem að við höfum verið að smakka undanfarna mánuði.

Fordrykkurinn:

Hér kemur auðvitað ekkert til greina nema gott kampavín. Þetta er stórhátíð og þá á maður að leyfa sér það. Kampavínið á að vera Brut, þ.e. þurrt og dæmi um góð kampavín eru Veuve-Clicquot, Mumm og Taittinger. Þeir ævintýragjarnari geta auðvitað valið freyðivín og þá er hægt að velja stórkostlegt ítalskt vín á borð við Ferrari, Crémant frá norðurhluta Búrgund á borð við Bailly-Lapierre – steinsnar frá Champagne – eða þá hoppa yfir til Ástralíu og taka freyðivín á borð við Jacobs Creek.

Hvítvínið

Hvaða hvítvín fer auðvitað alveg eftir því hvað eigi að bera á borð. Okkar val væri að horfa fyrst til Chablis ef þið eruð með t.d. humar eða humarsúpu. Reynið Chablisienne la Fourchaume 1er Cru eða Domaine de Malandes Chablis.

Með graflaxi þarf að fara til Alsace. Reynið Willm Pinot Gris eða Trimbach Pinot Gris eða ef Hugel eða Trimbach Riesling. Þeir sem eru til í að fara ótroðnar slóðir ættu að prufa góðan fino frá Jerez – t.d. Tio Pepe eða Osborne.

Rauðvínið

Hér vandast valið. Við mælum eindegið með því að halda sig við klassíkina. Fyrsta val væri Bordeaux og þar er hægt að fara í ýmsa verðflokka. Chateau Cantenac Brown 2010 er svakalega flott vín og annað vínið frá sama húsi – Brio de Cantenac 2009 – gefur ótrúlega mikið fyrir helminginn af peningnum. Það má svo líka fara í þriðja vínið –  Brown-Lamartine 2009, sem kostar einungis 2999 krónur. Bordeaux-vínin eru fyrir allt gott kjöt, villibráð, naut og auðvitað önd.

Og svo er það Rhone – stórkostleg vín má fá frá Guigal og virkilega flott frá Vidal-Fleury, Chapoutier og Delas.

Það hafa verið að koma inn mjög sterkir Spánverjar. Muga er klassíker sem að við elskum og sömuleiðis vínin frá Baron de Ley. Ný og spennandi eru Altos og Bodegas Muriel. Og svo auðvitað Ribera del Dureo, þið verðið að reyna Emilio Moro og Cepa 21. Svaðaleg vín.Spánverjarnir eru fyrir nautakjötið.

ítalía býður upp á marga góða kosti. vín á borð við Tommasi Amarone eru frábær með rjúpu og bragðmikilli villibráð og ekki síður þurfum við að horfa til Toskana. Þar eru frábærir kostir af alhliða vínum, rétt eins og Bordeaux. Frábær kaup eru í Cum Laude frá Banfi, Fonterutoli og Il poggione.

Chile á svo sín stórkostlegu vín á góðu verði. Við höfum nýlega smakkað tvö stórkostleg carmenere-vín. Terranyo og Purple Angel sem ættu að falla frábærlega að íslenskum smekk.

Svo eru það vandræðabörnin. Til dæmis hamborgarhryggurinn. Matur sem að mjög erfitt er að para vín með vegna sætu og seltu, bæði í kjöti og hráefni. Þið finnið aldrei vín sem er alveg rétt. Okkar ráðlegging er að taka vín sem er mjög kröftugt, hefur smá sætu og er virkilega gott eitt og sér. T.d. fyrrnefnt Amarone eða vín á borð við hið suður-franska Chateau l’Hospitalet sem er það mikið um sig að það lætur ekkert ögra sér.

 

Deila.