Chiringuito – strandbarirnir í Barceloneta

Barcelona er að verða einhver vinsælasta ferðamannaborg Evrópu og ein af fáum borgum sem getur boðið upp á bæði stórborgarlíf og strandlíf. Borgin er einhver sú magnaðasta í Evrópu full af stórkostlegum arkitektúr hvort sem er hinum frumlega modernista-arkitektúr Gaudi, miðaldabyggingum gotneska hverfisins eða nútímabyggingum eftir snillinga á borð við Jean Nouvel. Þarna eru líka góðir veitingastaðir á hverju strái og fyrir norðan og sunnan borgina er að finna fallega strandbæi, ekki síst á Costa Brava sem teygir sig í átt að Frakklandi norður af borginni.

En einhverja bestu ströndina er hins vegar að finna nánast í sjálfri miðborginni, í hverfinu Barceloneta. Þessi hreina og fína strönd er orðin eitt af aðdráttaröflum Barcelona en það er ekki ýkja langt síðan að strandhverfið var eins konar slömm, sóðalegt iðnaðarhverfi þar sem menguðum úrgangi var dælt út í sjóinn. Þarna byggðist upp mikill vefnaðarvöruiðnaður á nítjándu öld og sjórinn var ekki árennilegur fyrir baðgesti.

Allt breyttist þetta hins vegar með ólympíuleikunum árið 1992 en sú gífurlega uppbygging sem þá átti sér stað skipti sköpum fyrir þetta svæði. Það var hreinsað upp, samgöngur voru bættar og nú iðar Barceloneta af lífi. Meðfram ströndinni er að finna fjölmarga litla veitingastaði, eða kannski öllu heldur strandbari sem einnig bjóða upp á mat.

Spánverjar kalla slíka staði „chiringuitos“ og Katalónar „guingueta“ eða „xiringuito“, þetta eru meira skýli en byggingar. Við Barceloneta-ströndina er hins vegar að finna chiringuitos í hæsta gæðaflokki þar sem er frábært að setjast niður eftir einhvern tíma á ströndinni og fá sér drykk og jafnvel eitthvað að borða. Þeir bestu eru það góðir að fólk kemur úr borginni til að fá sér hádegismat eða kvöldverð.

Uppáhaldsstaður Vínóteksins á þessum slóðum heitir Pez Vela og er syðst á Barceloneta á strandhæð W-hótelsins sem setur svo sterkan svip á ströndina, teiknað af Ricardo Bofill einum þekktasta arkitekt Spánar, glerturn í formi segls, stundum kallað „Hotel Bella“ af heimamönnum þar sem að þessi hluti strandarinnar heitir Mar Bella. Þegar Mar Bella var afskekktari og samgöngur verri en í dag var þessi hluti nektarströnd og enn í dag er leyfilegt að sleikja sólina þarna án klæða. Ekki láta ykkur bregða.

Pez Vela er nútímalegur og flottur staður, maturinn sígildur spænskur tapasmatur sem oft er stílfærður aðeins og móderniseraður. Þarna má fá grillaðan smáfisk, grillaðar paprikur, paella og auðvitað Jabugo-skinku og fullt af ferskum fiski. Þarna situr fólk í jakkafötum innan um fólk á sundskýlunni og alltaf er maður jafn ánægður með matinn.

Við hliðina á Pez Vela eru nokkrir staðir til viðbótar, í eigu sömu rekstraraðila sem má einnig mæla sterklega með.

La Guingeta de Barceloneta og Xiringuito d’l Escriba eru hefðbundnari strandstaðir, reknir af þekktum matreiðslumönnum sem að passa vel upp á að gæðin sé í lagi. Guingeta er með mjög góða smárétti og Xiringuito virkilega góða paella – þó ekki jafngóða og hjá Cheriff inni í Barceloneta nær Ronda Litoral. Besta paella borgarinnar segja heimamenn sem að við treystum fullkomlega.

Ertu líka að spá í Madrid? Smelltu þá hér.

Deila.