Rioja-nýbylgja hjá Altos

Það er varla þverfótað fyrir rótgrónum og þekktum vínhúsum í sveitum Rioja og vín þessa héraðs hafa löngum verið eitt helsta flaggskip hefðbundinnar spænskrar víngerðar. Það er þó langt í frá að það ríki stöðnun á þessu svæði. Rétt eins og annars staðar í vínhéruðum Spánar hefur átt sér stað hæglát bylting í RIoja þar sem ný og spennandi vínhús hafa skotið upp kollinum og gömul vínhús gengið í endurnýjun lífdaga.

Altos er eitt af litlu, nýju vínhúsunum, stundum kölluð boutique-vínhús, sem hafa verið að vekja mikla og verðskuldaða athygli upp á síðkastið. Altos var stofnað af tveimur fjölskyldum sem  höfðu tengst víngerð. Ildefonso-fjölskyldan á t.d. einnig Finca Sobreno í Toro, Munoz-fjölskyldan á Bodegas Munoz í La Mancha og tóku þarna höndum saman með Frakkanum Jean-Marc Sauboua, sem  er yfir víngerð Laithwaites og  hefur unnið með mörgum þekktum vínhúsum, m.a. Haut-Brion.

Fyrst um sinn var vínið gert í aðstöðu sem að Altos leigði í þorpinu Laguardia í Rioja Alavesa. Í fyrrasumar  var hins vegar vígt nýtt og glæsilegt víngerðarhús þar sem öll aðstaða og tækni er eins og best verður á kosið. Frá vínhúsinu má sjá yfir til Kantabríu-fjallana sem að mynda eins konar skjólvegg fyrir Alavesa-svæðið og stöðva úrkomubakkana sem að oft koma norður úr Baskahéruðunum.

Altos kaupir þrúgur sínar af tíu vínræktendum í Alavesa sem gerðir hafa verið langtímasamningar við og áhersla lögð á að fá sem þroskaðastar þrúgur. Paloma Ildefonso segir að við víngerðina sé lagt mikið upp úr því að ná sem mestum lit og bragði úr þrúgunum en jafnframt að viðhalda ferskleika ávaxtarins. Eins og ávallt í Rioja er eikin ómissandi (og raunar skylda) en Altos notar 80% franska eik og 20% ameríska eik. Mikið er lagt upp úr gæðum og árið 2013, sem var miður vel heppnað í Rioja, var ekki framleitt neitt vín sem flokkað var hærra en Crianza.

Vínin frá Altos eru annars fimm. Hið stórgóða hvítvín Altos Blanco er blanda úr Viura (70%) og Malvasia, flott, ferskt og svolítið grösugt.

Yngsta rauðvínið er einfaldlega kallað Tempranillo og það er gert úr þrúgum af 20-30 ára gömlum vínvið og er um 6 mánuði á tunnu. Næst í goggunarröðinni er Crianza-vínið en þar er vínviðurinn orðinn 40 ára, vínið er lengur á tunnu.

Reservan er líka hreint Tempranillo-vín af gömlum vínvið og uppskerumagnið af hektara er orðið mjög lágt eða um 40 hektólítrar sem gefur verulega samþjöppun í víninu. Vínið er látið liggja lengi í hratinu, allt að mánuð og er síðan geymt í tvö ár á eik.

Toppurinn frá Altos er loks vínið Pigeage, sem nýlega bættist við í línunni, blanda úr Tempranillo (90%) og Graciano. Magnið er örlítið og víngerjunin á sér stað í litlum plastkerjum en ekki stórum stáltönkum. Glæsilegt vín í alla staði.

 

Deila.