Jólaönd fyllt með hnetum og ávöxtum

Öndin er vinsæl á jólaborðum Breta þótt líklega sé kalkúnin algengasti rétturinn þar. Yfirleitt er öndin fyllt og fyllingin er oftast aðeins frábrugðin þeirri dönsku sem að við höfum helst tekið upp á okkar arma. Heslihneturnar setja svip á þessa fyllingu ásamt sítrusávöxtunum sem gefa yndislegt bragð þótt við notum einungis börkinn og safann. Sellerí gefur síðan smá festu undir tönn og eplin sætu.

Þessi uppskrift að fyllingu passar í eina 3,5 kílóa Barbary-önd sem er nægur matur fyrir fjóra í það minnsta ásamt meðlæti.

Fyllingin:

 • 3-4 brauðsneiðar, saxaðar smátt
 • 100 g muldar og risaðar heslihnetur
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 2-3 sellerístönglar, skornir smátt
 • 1 egg, pískað
 • 2 græn epli, kjarnhreinsuð, flysjuð og skorin í bita
 • safi og rifinn börkur af einni appelsínu
 • safi og rifinn börkur af einni sítrónu
 • 1 msk ferskt timjan
 • 1 tsk rifinn múskat
 • salt og pipar

Dreifið muldum heslihnetum á ofnplöttu og ristið í 200 gráðu heitum ofni í um fimm mínútur eða þar til að þær eru farnar að ilma vel og aðeins að dökkna. Passið vel upp á tímann.

Rífið börkinn af sítrónu og appelsínu á fínu rifjárni. Pressið safann.

Saxið lauk, sellerí og epli. Pískið egg, skerið brauðið niður og rífið múskat.

Blandið öllu saman í skál.

Skolið öndina. Að innan og utan. Skerið rákir í skinnið og nuddið upp úr sjávarsalti. Setjið fyllinguna inn í.

Setjið á grind í ofni og látið bringurnar snúa upp.Setjið ofnskúffu undir til að láta safann úr öndinni leka ofan í. Í ofnskúffunni hafði þið 1 grófsaxaðan lauk, 2-3 grófasaxaðar gulrætur og 1 sellerístöngul ásamt 2-3 dl af vatni.

Eldið í um 1 klukkustund við 200 gráður. Snúið þá við í hálftíma og eldið síðan áfram með bringurnar upp þar til að skinnið er orðið gullið og stökkt.

Takið öndina út og látið standa í 10-15 mínútur áður en hún er borin fram.

Sósan:

Þegar öndin er búin að vera um klukkustund í ofninum er 2-3 dl af hvítvíni bætt út í ofnskúffuna og látið malla með í um hálftíma.Takið þá skúffuna úr og síið soðið í pott. Það getur verið skynsamlegt að taka grindina með öndinni út fyrst og leggja til hliðar til að vökvinn úr öndinni leki ekki niður í ofnin á meðan.

Fleytið mestu fitunni af soðinu. Sjóðið niður á miðlungshita þar til að þið eruð komin með bragðmikla sósu.. Undir lokin er 2-3 msk af rifsberjahlaupi (eða appelsínumarmelaði) hrært saman við. Þá er gott að piska um 1 dl af rjóma saman við alveg í lokin. Bragðið tl með salti og pipar.

Með öndinni er gott að bera fram sykurbaunir sem eru forsoðnar og síðan steiktar úr andarfitu og  Duchesses-kartöflur.

Hér eru Bordeaux-vín í essinu sínu, t.d. Brio de Cantenac.

 

 

Deila.