Kálfasnitsel með baunum

Kálfasnitsel er orðið algengara en áður í kjötborðum og um að gera að nýta sér það, þetta er frábær matur. Hér er afskaplega góð og fljótleg uppskrift. Við notum frosnar, grænar baunir (ertur) þar sem að grænar baunir eru sjaldan til ferskar hér á landi. Og með kartöflunum Cannellini-baunir úr dós.

Byrjið á því að velta snitselsneiðunum upp úr hveiti. Saltið og piprið. Hitið olíu og smjör saman á pönnu og steikið kjötsneiðarnar þar til að þær hafa tekið á sig gullin lit. Setjið á fat og geymið í 150 gráðu heitum ofni á meðan meðlætið er klárað.

Baunir með lauk

  • grænar ertur
  • hvítur laukur (eða gulur)

Bætið smá smjöri út á pönnuna sem kjötið var steikt á og mýkið laukinn í nokkrar mínútur. Bætið grænu baununum út á og leyfið þeim að hitna í gegn. Bragðið til með salti og pipar.

Kartöflumús með baunum

  • Kartöflur
  • Cannellini-baunir
  • smjör

Sjóðið um 600 g af kartöflum. Þegar þær eru fullsoðnar eru þær stappaðar vel. Hellið vökvanum frá baununum úr dósinni, bætið þeim út í og maukið saman við kartöflurnar. Hitið músina og bætið smjöri saman við þar til að hún er orðinn mjúk og fín (30-40 grömm í það minnsta). Bragðið til með salti og pipar.

Deila.