Hildigunnur bloggar – Enn ein bologneseútgáfan

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að bæta einni útgáfu af tagliatelle bolognese við hér en þær eru nokkrar til og allar auðvitað sú eina sanna! Hver fjölskylda í Bologna og þar um kring hefur hina einu sönnu uppskrift. Þessi er helst öðruvísi en hinar tvær hér á síðunni með því að í henni er ekki eins mikið af tómat. Fyrir minn smekk er dós af niðursoðnum tómötum alger bannvara í bolognese.

En hér er semsagt útgáfan sem ég nota:

 • 500 g grænt eða gult tagliatelle
 • 200 g svínakjöt, ég kaupi yfirleitt eina góða sneið af svínahnakka
 • 150 g nautakjöt, má nota gúllas
 • 2 msk ólífuolía
 • 80 g smjör
 • 1 laukur, ekki of stór
 • 1 gulrót
 • 1 leggur sellerí
 • 100 g beikon
 • 50 g kryddpylsa (nota hér pepperóní, helst sterkt, það er reyndar mín eigin útgáfa en ætti að falla að íslenskum smekk)
 • 1 glas hvítvín, ég nota stundum martini bianco blandað með vatni í staðinn, það er ekkert síðra, ef fólk ætlar ekki að drekka hvítvín með matnum.
 • 1 msk tómatkraftur (puré)
 • 1 vínglas af kálfa- eða nautasoði
 • salt, hvítur pipar úr kvörn, örlítið múskat
 • 0,75 dl rjómi.
Þegar við erum í stuði og höfum góðan tíma sköfum við kjötið með beittum hníf en annars má hakka það í matvinnsluvél.
Saxið grænmetið, beikonið og pylsuna frekar smátt.
Hitið olíu og 50 g af smjörinu, setjið laukinn, gulrótina og sellerístöngulinn út í ásamt beikoni. Látið malla rólega í um 10 mín, bætið þá við kjöti, pylsu (pepperóní) og víni. Sjóðið áfram í 10 mín. og hrærið í af og til. Blandið tómatkraftinum út í soðið og hellið í pottinn. Kryddið eftir smekk. Sjóðið við vægan hita í 1 1/2 klst. Setjið rjóma og smjör saman við. Hitið olíu og 50 g af smjörinu, setjið laukinn, gulrótina og sellerístöngulinn út í ásamt beikoni. Látið malla rólega í um 10 mín, bætið þá við kjöti, pylsu (pepperóní) og víni. Sjóðið áfram í 10 mín. og hrærið í af og til. Blandið tómatkraftinum út í soðið og hellið í pottinn. Kryddið eftir smekk. Sjóðið við vægan hita í 1 1/2 klst. Setjið rjóma og smjör saman við.
Berið fram með tagliatelle, grænu eða hvítu eða blöndu beggja

Ekki verra að hafa nýrifinn parmaost og gott rauðvínsglas eða þurrt lambrusco er alveg nauðsynlegt.

Fleiri útgáfur af Bolognese finnið þið með því að smella hér. 

Deila.