Nær bleika byltingin til Íslands 2016?

Það hefur átt sér stað bylting í vínheiminum á undanförnum árum. Bleik bylting þar sem rósavínin eru skyndilega orðin einhver heitustu vínin sem hægt er að fá. Hvert sem litið er: Norðurlandanna, Frakklands, Bretlands, Bandaríkjanna, alls staðar hefur neysla rósavína vaxið um tveggja stafa prósentutölu ár frá ári að undanförnu. Það er eiginlega bara við Íslendingar sem hafa látið bleiku byltinguna sem vind um eyru þjóta. En skyldi það breytast á þessu ári? Að minnsta kosti hefur úrval góðra rósavína aldrei verið betra og því ljóst að einhverjir veðja á að þetta kunni að vera árið sem að bleika byltingin nær tökum á Íslendingum rétt eins og öðrum.

En hvers vegna hefur þessi þróun átt sér stað? Rósavín hafa auðvitað alltaf haft sterka stöðu á tilteknum svæðum. Í Provence í Suður-Frakklandi hafa rósavínin alltaf átt sviðið og þar eru enn framleidd einhver bestu rósavín sem hægt er að fá. Í augum flestra annarra hafa rósavín hins vegar verið álitin hálfgert sull. Ekki hvít, ekki rauð, hvorki fugl né fiskur.

Ekki hefur það bætt úr skák að eins konar samasemmerki hefur verið á milli rósavína og sætra, ódýrra vína á mörgum mörkuðum, þar með talið hér á landi. Í Bandaríkjunum voru það „blush“-vínin úr White Zinfandel sem drógu vagninn, vín sem auðveldaði ungum neytendum sem höfðu alist upp á sætum gosdrykkjum að taka skrefið yfir í vín án þess að stuðast af of mikilli sýru og öðru því sem að gerir vín svo fersk og góð. Sama má segja um evrópsk vín á borð við Mateus og fjölmörg ódýr rósavín, þótt þau hafi ekki náð sömu hæðum í sætleika og bandarísku blush-vínin.

Það er tæpur áratugur frá því að rósavínin byrjuðu að færa sig upp á skaftið og þróunin byrjaði í Evrópu. Rósavín hafa ávallt verið sumardrykkur í suðurhluta Evrópu og smám saman fór sú hefð að færast norður á bóginn. Það kann að vera ein helsta ástæða þess að rósavínin hafa ekki enn náð alvöru fótfestu hér á landi, það er hreinlega ekki nógu heitt á sumrin til að rauðvínin víki fyrir þeim bleiku. En í kringum 2010 var það raunin til dæmis á Norðurlöndunum þar sem rósavínin byrjuðu að streyma inn í búðirnar og það sem meira var, rósavín í betri gæðum en menn höfðu átt að venjast. Allt í einu voru þarna komin „alvöru“ vín sem hægt var að taka alvarlega.

IMG_1115Bandaríkjamenn fylgdu í kjölfarið enda hafa straumar í evrópskri vínneyslu alltaf áhrif á neyslu þar í landi. Það er ekki síst á austurströndinni sem að rósavínin eru vinsæl og höfuðvígi þeirra þar vestra eru annars vegar New York og hins vegar Miami. Ríka fólkið í The Hamptons á Long Island hefur tekið rósavínin upp á sína arma (Suður-Frakkland hefur alltaf verið í miklu dálæti íbúanna þar) og þau hafa jafnvel fengið viðurnefnið „Hamptons Gatorade“. Einhver mest lesna greinin á vefsíðu New York Post síðastliðið sumar var dómsdagsspá um að tilteknar rósavínstegundir væru að seljast upp með tilheyrandi uppnámi í Hamptons. Og það voru ekki bara konurnar sem að neyttu bleiku vínanna, ein tískubylgjan voru karlar sem drukku rósavín og kölluðu það #brosé. Ekki spillir fyrir vinsældunum hvað rósavínin eru myndvæn og myllumerki á borð við #rosé, #roséallday, #summerwater og #rosewine dreifðu vinsældum þeirra hratt og örugglega í gegnum instagram.

Allt hefur þetta líka leitt til þess að vínhús um allan heim eru farin að framleiða meira og meira af betra og betra rósavíni. Í Kaliforníu, Ástralíu, Argentínu og auðvitað Frakklandi. Það eru Frakkarnir sem eiga vinningin í bleiku byltingunni og má nefna sem dæmi að útflutningur franskra rósavína til Bandaríkjanna jókst um 29% í magnið árið 2014 og 38% að verðmæti. Það spillir ekki fyrir að fræga fólkið kýs að gera sín rósavín þar. Þegar að þau Brad Pitt og Angelina Jolie ákváðu að framleiða sitt eigið rósavín gerðu þau það í Provence. Þau fengu eitt af betri vínhúsum Suður-Frakklands, Perrin-fjölskylduna, til að sjá um framleiðsluna á víninu Miraval sem fyrir vikið er alvöru rósavín.

Vínlistar í Bandaríkjunum eru nú oft stútfullir af rósavínum og þau eru sum hver farin að kosta skildinginn. En standa þau undir því? Vissulega geta rósavín verið afskaplega góð en þau eru nær ávallt einfaldari en góð hvítvín, eðli málsins samkvæmt. Þau eiga líka að vera ferskvara, rósavínið á að vera ungt, þetta eru ekki vín til geymslu.

IMG_1118 (2)Almennt um rósavín

En hvað eru eiginlega rósavin? Í stuttu og einföldu máli eru það vín úr dökkum þrúgum sem eru gerð með svipuðum hætti og hvítvín. Liturinn í raðuvínum kemur úr hýðinu og það eru nokkrar aðferðir notaðar við framleiðslu vínanna.

Blæðing eða Saignée á frönsku er algengasta aðferðin. Vínlögurinn er látinn liggja eftir pressun þar til að liturinn úr hýðunum er farinn að „blæða“ út í safann, yfirleitt í einn til þrjá sólarhringa. Eftir því sem að hýðin liggja lengur verður liturinn dekkri. Þegar réttum lit er náð er safinn síaður frá hýðunum og víngerjunin hefst.

Önnur aðferð er þegar þrúgurnar eru pressaðar undir það miklu fargi eða kolsýru að litarefni úr hýðinu fara út í safann.

Góð rósavín eru þurr og þau geta verið mismunandi á litinn. Það fer annars vegar eftir því hversu lengi þeim hefur verið „blætt“ og hvaða þrúgur eru notaðar.

Stundum er sagt að rósavín passi með öllu og það er ekki alveg fjarri lagi. Þetta eru fjöhæf vín, léttar en rauðvín og þyngri en hvítvín. Fín sumarvín, frábær með asískum mat.

Og þá er það bara stóra spurningin, verður sumarið 2016 sumarið sem að bleika byltingin nær til Íslands. Það eru fjölmörg rósavín komin í búðirnar og ÁTVR eru með rósavínsþema í maí. Við munum á næstunni skoða mörg þeirra rósavína sem eru í boði í búðunum.

Þið getið séð dómana eftir því sem að þeir bætast við með því að smella hér. 

 

 

Deila.