Roda 2010

IMG_1512Vínhúsið Roda er ekki bara eitt besta vínhús Rioja heldur hefur það jafnframt sterka Íslandstengingu í gegnum eigandann Mario Rotlant, sem hefur lengi verið með helstu saltfisksinnflytjendum Spánar og haslaði sér jafnframt fyrir ekki svo löngu völl í íslensku viðskiptalífi með kaupum á Vífilfelli.

Roda er ekki gamalt vínhús. Það var sett á laggirnar árið 1987 og var markmiðið frá upphafi að búa til Rioja-vín í nýjum stíl í hæsta gæðaflokki. Það hefur svo sannarlega tekist. Toppvínið Cirsion er með dýrustu og bestu vínum Rioja og Roda 1 og Roda 2 eru sömuleiðis í toppbaráttunni. Roda er vissulega í öðrum verðflokki en við eigum að venjast þegar Rioja-vin eru annars vegar. Það er hins vegar ekki dýrt miðað við önnur vín, t.d. frá Bordeaux, í sama gæðaflokki.

Roda er mikið vín í alla staði, liturinn dökkur og djúpur, lítið farið að láta á sjá þótt árin séu orðin nokkur. Nefið er massívt, dökk ber, þroskuð sólbökuð sólber, bláber og kirsuber, þarna er líka smá brenndur sykur og vanilla en einnig miðjarðarhafskryddjurtir og örlítill negull og kaffi. Kraftmikið í munni en mjúkt, langt.

100%

5.299 krónur. Frábær kaup, magnað Rioja.

  • 10
Deila.