Benito Santos Eo Albarino 2016

Benito Santos er ein af goðsögnunum í spænska vínhéraðinu Rias Baixas í Galisíu, héraðinu þar sem Atlantshafið en ekki Miðjarðarhafið er áhrifavaldurinn. Hann byrjaði að framleiða vín á fyrri hluta síðustu aldar úr þrúgum af ekrum afa síns, stofnaði loks sína eigin víngerð 1979 og varð smám saman einn af áhrifamestu víngerðarmönnum svæðisins og í hópi þeirra sem höfðu forystu um að Rias Baixas fengi stöðu D.O. héraðs sem er svona svipuð skilgreining og Appelation Controlée í Frakklandi, þ.e. svæðið og vín þess er skilgreint sem afmarkað víngerðarsvæði.

Santos sjálfur lést fyrir nokkrum árum en vínhúsið sem ber nafn hans er enn í hópi þeirra bestu. Rias Baixas snýst auðvitað fyrst og fremst um þrúguna Albarino og hvítvínin þaðan eru einhver bestu vín veraldar með sjávarréttum. Fallega fölgrænt, djúp angan þar sem blóm, ristaðar möndlur og sæt límóna eru í fyrirrúmi, í munni þykkt, ferskt, þurrt með þægilegri seltu og míneralískt. Klassavín.

100%

2.950 krónur. Frábær kaup, einstaklega ljúffengt vín sem fær auka hálfa stjörnu og þar með fullt hús stiga fyrir hlutfall verðs og gæða.

  • 10
Deila.