OMG Súkkulaðiporter frá Ölvisholti

Eftir endurnýjun lífdaga með nýju eignarhaldi virðist ímynd Ölvisholts vera að breytast. Búið er að taka til í vörulínunni og brugghúsið er duglegra að senda frá sér árstíðarbundna bjóra. Einnig hefur breyting orðið á stöðu bruggmeistara en Ásta Ósk Hlöðversdóttir er nýtekin við stöðu bruggmeistara hjá Ölvisholti og ákaflega gaman að sjá konu koma inn í sem bruggmeistara.

OMG Súkkulaðiporter nefnist páskabjór Ölvisholts í ár. Þetta er porter, 6.5% í áfengi með hýðum af tveimur mismunandi tegundum af kakóbaunum frá Omnom Súkkulaði, Madagagaskar- og Tansaníubaunum. Kakóbaunirnar gefa bjórnum súkkulaðikennt yfirbragð og er hugmyndin eflaust sú að auðveldlega sé hægt að drekka hann með páskaeggi, enda vel við hæfi á páskum.

Bjórinn er dökkbrúnn með angan af suðusúkkalaði og kakó. Á tungu er bjórinn frekar þurr, með smá vott af jörð, súkkulaði og örlítilli beiskju í lokin.

Í grunninn er þetta fínn porter og frekar auðveldur í drykkju. Vínotek mælir með þessum bjór fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor í ölinu og þá sem vilja eitthvað að drekka með páskaeggjaátinu yfir hátíðarnar.

Deila.