E. Guigal Cotes-du-Rhone Blanc 2015

Cotes-du-Rhone hefur löngum verið ein af helstu táknmyndum franskrar rauðvínsgerðar og útgáfan frá vínhúsi E. Guigal einhver besta birtingarmynd þessa vínsvæðis. Það fer mun minna fyrir hvítum Rónarvínum en rauðum en þau eru engu að síður til og geta verið ansi hreint góð í höndum toppframleiðenda á borð við Guigal. Rétt eins og rauða systurvínið er þetta afbragðsgott vín í sínum flokki og ánægjulegt að sjá það aftur hér á landi eftir margra ára hlé.

Rétt eins og rauða Cotes-du-Rhone vínið hefur hið hvita frá Guigal sérstöðu að því leytinu til að ólíkt flestum vínum sem bera þessa skilgreiningu þá er stíllinn miklu meira í ætt við norðurhluta Rhone-dalsins en suðurhlutans. Í tilviki rauða vínsins þýðir það að Syrah-þrúgann er í aðalhlutverki en í tilviki þess hvíta að það er Viognier sem setur tóninn umfram aðrar þrúgur. Vínið minnir að mörgu leyti eiginlega meira á vín frá þorpinu Condrieu en vín sem skilgreind eru sem Cotes-du-Rhone.

Það hefur fallegan ljósgulan blæ, seyðandi angan af apríkósum, ferskjum og mandarínuberki, örlítið kryddað, blóm. Í munni hefur það góðan þéttleika, svolítið feitt og mjúkt og með fína sýru og nokkuð míneralískt, mikill karakter.

 

90%

2.499 krónur. Frábært vín, frábær kaup á þessu verði.

  • 9
Deila.