Gerard Bertrand Kosmos 2014

Það þarf líklega ekki að kynna Gerard Bertrand fyrir íslensku vínáhugafólki. Hann hefur á síðustu árum skipað sér sess sem einn helsti víngerðarmaður ekki einungis á heimaslóðanna í Languedoc í Suður-Frakklandi heldur í Evrópu. Bertrand hefur fært mörgum nýja sýn á Languedoc-vínin og hefur sömuleiðis verið framarlega í framleiðslu á lífrænt ræktuðum og lífefldum (biodynamic) vínum. Kosmor er nýjasta vínið frá Bertrand sem hingað er komið til lands og er jafnt algjörlega í hans anda sem ansi frábrugðið flestum þeim vínum sem við höfum kynnst frá honum til þessa.

Vínið er flókin þrúgublanda, þarna eru heilar sjö þrúgur – Syrah, Malbec, Mourvédre, Cabernet Sauvignon, Merlot, Grenache, Marselan –  og það er flokkað í kategóríunni Vin de France. Það er nýr flokkur sem varð til þegar að franska vínlöggjöfin var endurskoðuð fyrir nokkrum árum með það að markmiði að auðvelda frönskum vínframleiðendum að keppa alþjóðlega. Vin de France kemur í stað gömlu skilgreiningarinnar Vin de Table sem var m.a. þeim annmörkum háð að ekki mætti tilgreina hvaða þrúgur væru notaðar eða árgangsmerkja. Með Vin de France flokknum eiga franskir víngerðarmenn að geta keppt við Nýja heiminn á sömu forsendum og víngerðarmenn þar búa við.

Kosmos er hreinlega dúndurgott vín, dökkt og massívt, bláberja- og krækiberjasafi í nefinu, sólber, sæt krydd, sætur viður, sedrus, þétt og mikið í munni, nokkuð míneralískt, tannín eru kröftug en mjúk, vínið hefur lengd og afl. Það ætti að hafa töluverða geymslugetu en er þó algjörlega drykkjarhæft núna.

100%

3.199 krónur. Frábær kaup. Þetta er gífurlega mikið vín fyrir peninginn og það er ekki hægt að gefa því aðra einkunn en fullt hús stiga í sínum verðflokki. Með nauti og lambi.

  • 10
Deila.