Nino Negri Sfursat 2011

Valtellina er svæði sem að við höfum ekki séð mikið – ef þá nokkuð af hér á landi. Að minnsta kosti rekur okkur ekki minni til þess að þaðan hafi áður verið fáanleg vín. Nú eru hins vegar fáanleg, að minnsta kosti í sérpöntun, nokkur vín frá einum besta framleiðanda svæðisins, Nino Negri.

Svæðið Valtellina er í norðurhluta Ítalíu norður af Mílanó og Lago di Como. Það eru aðallega rauðvín ræktuð í Valtellina og þá úr þrúgunni Chiavennasca sem flestir þekkja örugglega betur undir öðru nafni eða Nebbiolo. Sum af bestu vínunum eru gerð í eins konar Amarone-stíl sem á svæðinu nefnist Sforzato eða Sfursat.

Nino Negri Sfursat er farið að sýna byrjandi þroska í litnum, dökkrauður liturinn farinn að víkja fyriri ögn brúnleitari tónum en í nefi og munni hefur það góðan ferskleika. Angan vínsins er margslungin, þurrkaðir ávextir, ristaðar hnetur, leður, kaffi og krydd. Mjög þétt og þykkt í munni, ferskt og flókið. Frábært vín.

100%

4.999 krónur. Frábær kaup. Með vel hanginni nautasteik, osso buco eða jafnvel mildri villibráð.

  • 10
Deila.