E. Guigal Cotes du Rhone 2015

Cotes du Rhone er samnefnari yfir vín sem framleidd eru úr þrúgum sem geta verið ræktaðar um nær allan Rhone-dalinn. Þetta er ansi stórt svæði, teygir sig yfir 200 kílómetra svæði frá Vienne í norðri til Avignon í suðri. Vínin geta verið rauð, hvít eða rósavín og árlega eru framleiddar rúmlega 400 milljón flöskur undir merkjum þessa AOC-svæðis. Það gefur augaleið að það getur verið ansi misjafn sauðurinn í þetta stórum hópi, bæði hvað varðar stíl vínanna og gæði.

Guigal er eitt allra besta ef ekki það besta vínhús Rhone-dalsins og það er ekkert slakað á gæðunum þegar Cotes du Rhone er annarsvegar. Þetta eru alla jafna með bestu vínunum sem gerð eru í þessum AOC-flokki og stíllinn er í anda og stíl vínanna frá Norður-Rhone þar sem Syrah-þrúgan er í aðalhlutverki. 2015 var stórkostlegur árgangur á þessu svæði, sá besti frá 2010, og þetta vín ber þess merki, liturinn rauðfjólublár, fáguð og þétt angan af dökkrauðum berjum, kryddum og smá reyk, vínið er langt, með fína fyllingu og lengd, þéttan tannískan strúktúr og fágun. Enn einu sinni slá Guigal-feðgarnir sjálfum sér við með grunnvíninu Cotes du Rhone. Magnað í sínum flokki.

 

 

90%

2.599 krónur. Frábær kaup. Vín sem er flott með t.d. lambi eða önd og sem alveg þolir að vera borið fram með mildri villibráð á borð við gæs eða hreindýr.

  • 9
Deila.