Montes Alpha Chardonnay 2016

Montes Alpha er lína af vínum frá Aurelio Montes sem endurspeglar margt það besta í víngerð Chile. Vínin hafa tekið nokkrum breytingum í gegnum árin eftir því sem að nýjar ekrur og svæði koma til sögunnar auk þess sem stíll víngerðarinnar er í stöðugri þróun.

Í Chile hafa menn verið að fikra sig áfram í leit að svalari svæðum fyrir hvítar þrúgur og rauðar á borð við Pinot Noir, ekki síst í dölum og á hæðum þar sem að loftslagið er milt og kallt Kyrrahafið nær að tempra hitann. Þrúgurnar sem notaðar eru í Montes Alpha Chardonnay hafa þannig síðustu áru verið ræktaðar á svæðinu Aconcagua Costa en þar er Kyrrahafið í einungis um 12 kílómetra fjarlægð. Aconcagua Costa fékk stöðu sem DO-víngerðarsvæði fyrir einum fjórum árum en þarna er m.a. að finna dalina Casablanca og Leyda.

Vínið er ljósgult á lit, angan fersk og suðræn, ferskjur, þroskaður greipávöxtur, kantalópumelóna og eplabaka með smjördeigi, mild vanilla og eik, þéttur ávöxtur og fínn ferskleiki í munni.

90%

2.999 krónur. Frábær kaup. Með humarsúpu eða grilluðum humar.

  • 9
Deila.