Selvapiana Bucerchiale 2015

Rufina er minnsta en líka eitthvert magnaðasta undirsvæði Chianti og Bucerchiale frá Fattoria Selvapiana er með allra bestu vínum svæðisins Chianti Rufina í Toskana.  Ekran Bucerchiale er rúmir tólf hektarar að stærð og í um 200 metra hæð yfir sjávarmáli. Síðasti árgangur af þessu víni sem var fáanlegur hér á landi er 2011-árgangurinn og hann var valinn vín ársins hjá okkur árið 2015. Nú er komið að 2015-árganginum og hann er ekki síðri, þetta er vín sem hefur nánast allt það sem maður leitar eftir í frábæru Chianti-víni.

Vínið er dimmrautt, mórautt og nefið er jarðbundið og margslungið, skógarbotn, tóbakslauf og dökkrauð ber, kirsuber og villt skógarber, það hefur síðan í munni þetta einstaka jafnvægi á milli sýru, tannína og ávaxtar, sem er í senn þroskaður, kryddaður og ferskur sem bestu Chianti-vínin ná á góðum degi.

Deila.