Mumm Cordon Rouge Brut

Það voru Þjóðverjar, bræðurnir Mumm og félagi þeirra M. Giesler, sem stofnuðu „P.A. Mumm, Giesler & Cie árið 1827. Mumm-bræðurnir komu frá Rudesheim í Rínardalnum og átti fjölskyldan mikilsvirt vínfyrirtæki þar. Samstarf þeirra og Giesler entist í nokkur ár eða þar til Giesler stofnaði sitt eigið fyrirtæki en barnabörn Mumm komu inn í reksturinn ásamt honum. Eitt þeirra, Georges-Hermann tók að lokum einn við fyrirtækinu og ber það nafn hans enn í dag eða „G.H. Mumm & Cie“.

Reksturinn gekk mjög vel allt fram að fyrri heimsstyrjöldinni en þá varð þýskt þjóðerni eigendanna þeim fjötur um fót. Fyrirtækið, sem var þá orðið stærsta kampavínsfyrirtækið í Reims, var gert upptækt af franska ríkinu og selt hópi kornmyllueigenda í norðurhluta Frakklands á uppboði eftir stríð.

Um tíma var Mumm í eigu kanadíska fyrirtækisins Seagrams en er nú hluti af frönsku Pernod-Ricard-samsteypunni.

Þekktasta kampavín Mumm er Cordon Rogue eða rauði borðinn, auðþekkjanlegt af rauðu skástriki yfir flöskumiðann.

Það var tímabil á síðasta áratug sem Mumm var í lægð, um þó nokkurt skeið hefur þetta kampavín hins vegar haldið áfram að batna og sú nýjasta sem við smökkuðum var bara ansi spræk. Cordon Rouge Brut freyðir jafnt og vel, áberandi brioche-brauð í nefi ásamt hnetum og sítrónuberki. Þykkt og þétt í munni með ávexti og ristuðu brauði, kolsýran fellur vel að heildinni.

5.799 krónur

Deila.