Það sama er uppi á teningnum varðandi hvítvínsþrúgur og þær rauðu. Nokkrar tegundir, flestar þeirra franskar að uppruna, hafa náð þeirri stöðu að verða það sem kalla má „alþjóðlegar“. Rétt eins og með rauðu þrúgurnar þá eiga þær hvítu sinni uppruna sem oftast er á einhverju afmörkuðu landssvæði í Frakklandi.
Segja má að tvær þrúgur hafi ákveðna yfirburðastöðu, Chardonnay og Sauvignon Blanc, og tvær til viðbótar geti talist hafa mjög sterka stöðu. Riesling og Pinot Gris eða Pinot Grigio. Við teljum ekki þrúguna Airén með hér þó svo að hún sé sú hvíta þrúga sem mest er ræktað af í heiminum. Hún er nær einvörðungu bundin við Spán og fyrst og fremst notuð í grunnvín fyrir brandí. Það hversu víðfeðmar Airén ekrurnar eru ræðst líka að hluta til af því að á aðalræktunarsvæði í Castilla-La Mancha er langt bil á milli vínrunnanna til að hver runni fái nægjanlega vökva úr jarðveginum.
Rétt eins og Cabernet Sauvignon hefur yfirburðastöðu á heimsvísu í rauða flokknum er það þrúgan Chardonnay sem ber höfuð og herðar yfir aðrar hvítar þrúgur. Vinsældir hennar má ekki síst rekja til Bandaríkjanna en Bandaríkjamenn neyta tveimur þriðja af heimsframleiðslu Chardonnay samkvæmt tölum IWSR (International Wine and Spirit Record). Vinsældir Chardonnay voru á tímabili slíkar að til varð eins konar andspyrnuhreyfing er kallaði sig ABC eða Anything But Chardonnay.
Chardonnay kemur upprunalega frá Mið-Frakklandi, nánar tiltekið Búrgund eða Bourgogne, en þar eru vínin kennd við einstaka þorp og ekrur á borð við Chablis, Beaune og Montrachet að við tölum nú ekki um eitt af uppáhaldshvítvínum Íslendinga í gegnum tíðina, Pouilly-Fuissé. Chardonnay er líka ásamt hinni rauðu Pinot Noir ein af meginþrúgum Champagne-héraðsins.
Ólíkt hinnar rauðu systkinaþrúgu sinnar frá Bourgogne, Pinot Noir, nýtur Chardonnay sín vel við mjög fjölbreytt ræktunarskilyrði um allan heim. Bestu hvítvín hvort sem er Kaliforníu, Chile, Suður-Afríku eða Ástralíu eru Chardonnay-vín. Jafnvel á Ítalíu og Spáni eru sum eftirsóttustu hvítvínin úr Chardonnay, s.s. hið ítalska Castello della Sala frá Úmbríu.
Chardonnay er hins vegar engin trygging fyrir gæðum frekar en Cabernet Sauvignon í rauðvínunum. Það er mikið framleitt af þunnum og sviplausum Chardonnay-vínum. En bestu Chardonnay-vínin eru líka einhver bestu hvítvín heims.
Sauvignon Blanc er sömuleiðis frönsk og þekktust þar sem þrúgan á bak við vínin frá þorpunum Sancerre og Pouilly í Loire-dalnum. Sauvignon Blanc er jafnframt notuð í hvítum Bordeaux-vínum ásamt þrúgunni Sémillon.
Þrúgan er yfirleitt auðþekkjanleg, skörp og grösug, og hefur ekki sömu breidd og Chardonnay. Víða eru framleidd afburða góð Sauvignon Blanc-vín, hvort sem er í Tasmaníu eða Nýja-Sjálandi eða Friuli á Ítalíu og Steiermark í Austurríki.
Riesling hefur ekki náð þessari miklu útbreiðslu enda nýtur Riesling sín ekki nema við tiltekin skilyrði. Þekktust eru Riesling-vínin frá Mósel og Rín í Þýskalandi, sem eru þegar best lætur meðal tignarlegustu hvítvína heims. Frakklandsmegin við Rín í Alsace eru sömuleiðis ræktuð mögnuð Riesling-vín, yfirleitt töluvert þurrari og þykkari, og í hlíðum Dónár í Austurríki sýnir Riesling á sér sínar bestu hliðar, ekki síst á svæðum á borð við Wachau
Margir vilja meina að enginn þrúga önnur komist með tærnar þar sem Riesling hefur hælana og þegar maður smakkar bestu þýsku hvítvínin hefur maður tilhneigingu til að taka undir það. Hún hefur hins vegar aldrei náð sömu vinsældum og Chardonnay og Sauvignon Blanc. Nýji heimurinn virðist ekki eiga mjög vel við hana þótt vissulega séu dæmi um frábær Riesling-vín frá jafnólíkum stöðum og Barossa í Ástralíu og Washington-ríki í Bandaríkjunum.
Fjórða þrúgan sem náð hefur gífurlegum vinsældum er Pinot Gris eða Pinot Grigio. Undir fyrra nafninu er hún ræktuð í Alsace í Frakklandi en undir því síðara hefur hún slegið í gegn, sem þægilegt ítalskt sumarvín. Það eru vissulega framleitt háklassa vín úr Pinot Grigio á Ítalíu, s.s. í Friuli, en það eru einfaldari vínin sem hafa rutt brautina í stórmörkuðum Bandaríkjanna og Bretlands. Utan Evrópu er hún farin að sjást og t.d. í Oregon í Bandaríkjunum líður henni mjög vel.
Út um alla Evrópu má finna hvítar þrúgutegundir sem eru stórkostlegar en hafa ekki náð sama alþjóðlega slagkrafti og þær sem hér hafa verið nefndar. Rónar-þrúgan Viognier nýtur til að mynda vaxandi fylgi fyrir þokka sinn og sérkenni og hin austurríska Gruner Veltliner heillar flesta þá sem henni kynnast.
Á Spáni verður að nefna Albarino-vínin frá svæðunum Rias Baixas og Valdeorras í Galisíu hafa fyrir löngu sannað sig og Verdejo og Viura-vínin frá Rueda hafa sömuleiðis komið sér vel fyrir á kortinu. Fyrir áhugafólk um hvítvín er líka sérstök ástæða til að hafa augun opin fyrir þrúgunni Godello, þrúgu sem spænsku vínhúsin eru sífellt að ná betri tökum á.
Um alla Ítalíu má finna einstakar hvítar þrúgur, s.s. Trebbiano, Prosecco, Verdiccio, Vermentino, Fiano og Greco. Þessi fjölbreytta flóra tryggir mikla einstaka breidd í ítölskum hvítvínum frá hinum fersku og sýruríku vínum frá alpahéraðinu Terlano í norðri til hinna sólríku vína Sikileyjar í suðri. Oftar en ekki eru þetta meira spennandi vín en hin „alþjóðlegu“.