Linguine með risarækjum

Á veitingastöðum við ítölsku sjávarsíðuna má yfirleitt fá pastarétti með skelfiski, hvort sem er með skeljum, humar eða rækjum. Scampi er lítill humar áþekkur íslenska leturhumrinum, Gamberi eru risarækjur og Gamberetti litlar rækjur. Yfirleitt er uppskriftin einföld, útfærslurnar í einstaka atriðum óteljandi og hér er okkar útgáfa af ítölsku sumarpasta. Við notum risarækjur í þessa uppskrift, þær passa frábærlega við og eru mun ódýrari en humarinn.

  • 400 g risarækjur
  • 500 g Linguine pasta
  • 6-8 hvítlauksrif, söxuð
  • 1 askja þroskaðir kirsuberjatómatar
  • rifinn börkur af sítrónu og smá sítrónusafi
  • 1 búnt steinselja, helst flatlaufa
  • kjúklingakraftur
  • ólífuolía
  • chiliflögur
  • salt og pipar

Ef rækjurnar eru frosnar þarf að byrja á að þíða þær. Það má gera með því að láta kalt vatn renna yfir þær í sigti í nokkrar mínútur.

Hitið vatn upp að suðu í stórum pottu. Saltið vel, Ítalir hafa pastavatnið brimsalt, og sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum.

Hitið nokkrar matskeiðar af ólífuolíu á stórri pönnu – hún þarf að geta tekið við pastanu í lokin líka.

Þegar olían fer að hitna er nokkrum klípum af chiliflögum bætt saman við. Um mínútu seinna fer fínt saxaður hvítlaukurinn á pönnuna og aftur eftir um mínútu rækjurnar. Veltið þeim um á pönnunni í 1-2 mínútur.

Bætið tómötunum við. Það er gott að nota litla tómata á borð við kirsuberjatómata og skera í tvennt. Það má líka nota stærri tómata, s.s. plómutómata og skera í fernt. Tómatarnir þurfa helst að vera orðnir vel þroskaðir, þá verða þeir sætari við eldun.

Látið þetta allt malla í olíunni á miðlungshita í nokkrar mínútur þar til að rækjurnar skipta alveg úr gráum lit yfir í bleikan og tómatarnir verði mjúkir. Passið að hitinn sé ekki það mikill að hvítlaukurinn brenni. Setjið fínrifinn börk af um einni sítrónu saman við. Takið um 2 dl af pastavatninu sem er að sjóða, setjið kjúklingakraftstening saman við og bætið við á pönnuna. Leyfið þessu að malla á miðlungshita í nokkrar mínútur.

Þegar pastað er tilbúið er vatnið síað frá og pastanu bætt út á pönnuna. Hrærið fínt saxaðri steinseljunni saman við, piprið vel og kreystið örlítinn sítrónusafa saman við ef vill.

Hafið hágæða ólífuolíu með þegar pastað er borið fram. Ítalir borða ekki rifinn parmesan með sjávarréttapasta en Íslendingar mega alveg svindla á því, rétt eins og að fá sér Cappucino eða Macchiato eftir hádegi.

Gott hvítvín eða rósavín er tilvalið með þessu.

 

Deila.