Chapoutier Crozes-Hermitage Les Meysonniers 2018

Hermitage er goðsagnakennd hæð sem gnæfir yfir bæinn Tain l’Hermitage þar sem fljótið Rhone rennur í gegnum. Þetta er ein þekktasta vínekra veraldar en á láglendinu í kringum hæðina er ekki síður að finna oft frábær vín, gerð úr Syrah-þrúgunni eins og Hermitage-vínin, vín sem þurfa ekki eins langan tíma til að ná þroska og kosta brot af stóru Hermitage-vínunum. Chapoutier-fjölskyldan er þekktasti framleiðandi þessa hluta Rhone-dalsins og raunar með virtustu vínhúsum veraldar. Les Meysonniers sem er gert úr Syrah-þrúgum af 25 ára, lífrænt ræktuðum vínvið er líka eins konar „mini“-Hermitage.  Liturinn er djúpur og dökkur, út í fjólublátt þykkur sætur  og kryddaður berjasafi, kirsuber, brómber, nýmulinn pipar, villt rósmarín, blóðberg og fjós. Í munni er vínið þurrt, kröftugt, flottur tannískur strúktúr gerir þetta að höfugu og glæsilegu víni.

90%

3.950 krónur. Frábær kaup. Þetta er vín sem ræður alveg við milda villibráð, hreindýr og gæs. Frábært með lambakjöti. Vínið hefur gott af umhellingu og það má vel leyfa því að þroskast áfram í 2-3 ár að minnsta kosti.

  • 9
Deila.