Eitthvert mest áberandi „trendið“ í vínheiminum síðustu árin eru stöðugt vaxandi vinsældir rósavína. Ekkert lát virðist vera á þeim vinsældum og það má nú segja með vissu að þessi bylgja sé líka skollin á Íslandi. Við fjölluðum ítarlega um þessa þróun fyrir nokkrum árum og má lesa um það með því að smella hér.
Ef við horfum á sölutölur rósavíns fyrir árið 2020 má sjá að heildarsala rósavína nam rúmum 110 þúsund lítrum sem er 30% aukning frá árinu áður. En það er líka athyglisvert að roðavínin eða „blush“ sem lengi vel voru samnefnari í hugum margra hér yfir rósavín hafa að mestu vikið fyri „hefðbundnari“ rósavínum en söluaukning þeirra á milli ára nam um 60%!

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þetta þróast en við teljum óhætt að fullyrða að aldrei hafi fleiri og betri rósavín verið í boði hér á landi en í ár en alls sýnir vefur vínbúðanna að á áttunda tug rósavína séu nú fáanleg.
Við höfum verið að smakka töluvert af rósavínum upp á síðkastið. Það mun halda áfram að bætast í þann sarp og sjá má nýjustu víndómana um rósavín hér.