Hallveig bloggar: Risotto með blaðlauk, geitaosti og beikoni

Stundum fer lífið ekki eins og maður sá það fyrir sér, ég átti að vera á Ísafirði í kvöld að halda tónleika en veðurguðirnir voru ekki á sama máli. Og hvað gerir maður þá? eldar góðan mat. 

Ég kíkti í ísskápinn og hugsaði hvað væri nú þar sem þyrfti að nota. Ég rakst þar á góðan bita af hunangs-geitaosti, blaðlauk, ferskt timian og nokkrar sneiðar af þykkt skornu beikoni. Ég ákvað að þessi innihaldsefni væru tilvalin í risotto, en það er hinn fullkomni matur til að nota það sem maður á, því yfirleitt verður risotto gott sama hvað maður setur í það, svo lengi sem hráefnin eru spennandi og passa saman!

Auðvitað má nota allan mjúkan geitaost sem er til, en gott að bæta þá aðeins við hunangið, og ef beikonið er ekki þykkt skorið þá er bara að nota fleiri sneiðar! En skerið þá í aðeins grófari bita.

Úr varð þessi uppskrift sem bragðaðist hreint dásamlega, létt og gott á þessum fyrsta “sumar”degi ársins.

Innihald:

  • tveir blaðlaukar, græni hlutinn skorinn af og restin hreinsuð og skorin í fremur fínlegar sneiðar
  • 350 gr risottogrjón
  • 4 sneiðar þykkt skorið beikon, skorið í litla bita (um það bil 60 gr) 
  • 70 gr hunangs-geitaostur (má nota allan mjúkan geitaost, en aukið þá við hunangið)
  • 3 góðir geirar hvítlaukur, smátt skornir
  • góð slumma af extra virgin ólífuolíu
  • 60 gr smjör
  • 200 ml þurrt hvítvín
  • 1 lítri kjúklingasoð (t.d. soðið vatn og tveir teningar)
  • handfylli af fersku timian, blöðin tekin af stilkunum
  • 100 gr ferskrifinn parmigiano reggiano
  • 2 tsk fljótandi hunang

Aðferð:

skerið grænmetið og beikonið og undirbúið soðið.

Takið til þykkbotna pott, hér virkar steypujárnið best.

hitið pottinn í háan meðalhita,, setjið smá olíu í pottinn og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Fjarlægið en skiljið fituna eftir í pottinum, setjið til hliðar.

Lækkið í meðalhita og bætið slummu af olíu og smjörinu við beikonfituna og mýkið blaðlaukinn en passið að brenna hann ekki.

Þegar laukurinn er orðinn mjúkur, bætið þá hvítlauknum og timianinu við og steikið í tvær mínútur. 

Bætið svo grjónunum við og leyfið þeim að taka upp vökvann sem hefur myndast.

Þar á eftir setjið þið hvítvínið saman við og eldið grjónin þar til vökvinn hefur gufað upp til að losna við áfengið.

Bætið því næst helmingnum af beikonbitunum saman við og byrjið að vökva risottoið með einni ausu af soði í einu. Bætið einungis við vöka þegar grjónin eru farið að æpa á meiri vökvun, en passið alltaf að þau festist ekki við botninn. Ef það fer að gerast þarf mögulega að lækka hitann aðeins.

Þegar vökvinn er við það að klárast (um það bil ein ausa eftir) er kominn tími á að bæta við parmigiano ostinum, annarri teskeiðinni af hunanginu og um það bil ¾ af geitaostinum. Hrærið þessu saman við og setjið svo síðustu ausuna af soðinu saman við. Á þessum tímapunkti er nauðsynlegt að smakka, ef grjónin eru enn of hörð (þau eiga að hafa smá bit, en samt ekki þannig að þau bragðist hrá) og ef þarf, bætið við örlítið af soðnu vatni.

Til að bera fram: dreypið seinni teskeiðinni af hunangi yfir, myljið restinni af geitaostinum yfir og dreifið afganginum af beikonbitunum ofan á.

Berið fram með meiri nýrifnum parmigiano osti og það er ekkert verra að hafa restina af hvítvíninu með!

Deila.