Piper-Heidsieck Brut Rosé

Piper er eitt af gömlu klassísku kampavínshúsunum, stofnað af Heidsieck-fjölskyldunni í Reims árið 1785. Klassísku kampavínshúsin státa sig gjarnan af fræga fólkinu sem hefur haft dálæti á kampavíninu í gegnum tíðina, hvort sem það er konungsfjölskyldur, stjórnmálamenn á borð við Churchill, frægir listamenn eða í seinni tíð rapparar. Glamúrinn í kringum Piper er ekki síst í gegnum kvikmyndaiðnaðinn, þetta var fyrsta kampavínið sem sást í kvikmynd, Marilyn Monroe fór ekki leynd með dálæti sitt á því og árum saman var þetta kampavínið sem borið var fram á kvikmyndahátíðinni í Cannes og við Óskarsverðlaunahátíðina.

Brut Rosé er eitt af klassísku Piper-vínunum, árgangslaust rósakampavín. Það er ljósbleikt, unglegt í nefi og munni, rauður berjaávöxtur áberandi, jarðarber, hindber og rifs, vottur af brioch, ferskt og sýrumikið. Þetta er aðgengilegt rósakampavín, þar sem ávöxturinn er í fyrrirúmi, ekki vín sem þarf að geyma, best að njóta þess strax.

80%

7.728 krónur. Mjög góð kaup.

  • 8
Deila.