Það er hægt að gera margt við kartöflur. Hér látum við þær bakast í bragðmikilli sítrónusósu sem er síðan tilvalin með kjötinu sem við berum kartöflurnar fram með.
- 1 kg kartöflur
- 1 sítróna, safinn pressaður
- 1 dl ólívuolía
- 2 dl kjúklingakraftur
- 3-4 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 2 tsk óreganó
- Paprikukrydd
- salt og pipar
Flysjið kartöflurnar og skerið í grófa bita. Blandið öllum öðrum hráefnum nema paprikukryddi saman og setjið í stóran poka. Gott er að nota „gallon“-stærðina af Ziplock-pokum. Bætið kartöflunum við og leyfið þeim að marinerast í leginum í 2 klukkustundir.
Setjið allt í ofnfast fat, sáldrið paprikukryddi yfir kartöflurnar og bakið í 45 mínútur í 200 gráðu heitum ofni eða þar til kartöflurnar eru vel eldaðar í gegn. Þá á einnig að vera töluvert af sósu í fatinu með kartöflunum.
Frábært með grilluðu kjöti. Reynið til dæmis með grískum lambakótilettum eða fylltu grísku lambalæri.