Paul Mas Estate Sauvignon Blanc 2012

Estate-línan frá suður-franska vínhúsinu Paul Mas samanstendur af nokkrum athyglisverðum vínum sem eiga það sameiginlegt að vera „einnar ekru“ vín þ.e.a.s. allar þrúgur sem notaðar eru í vínið koma af sömu ekrunni. Sauvignon Blanc-þrúgurnar sem hér eru notaðar koma af ekrunni Pépiniere sem er í Limoux í Languedoc í einum 200 metra hæð yfir sjávarmáli.

Þetta er greinilega franskur Sauvignon en þó flörtar hann svolítið við nýjaheimsstílinn, er meira að segja örlítið eikaður. Fallega ljósgult á lit, sætir suðrænir ávextir í nefi, sítrusangan, ferskjur og þroskaðar perur, smá reykur og grænar kryddjurtir. Þétt og ferskt, virkilega gott matarvín, ekta vín fyrir grillaðan humar.

2.559 krónur. Mjög góð kaup.

Deila.