
Trivento Golden Reserve hefur fyrir löngu fest sig í sessi hjá íslenskum Malbec-unnendum. Útlit flöskunnar hefur nú tekið breytingum frá því að við smökkuðum það síðast en vínið sjálft heldur sínu striki. Þrúgurnar koma sem fyrr frá Lujan de Cuyo sem er rétt utan við sjálfa borgina Mendoza og með elstu ræktunarsvæðum héraðsins. Liturinn er dökkur eins og alla jafna er raunin þegar Malbec er annars vegar og angan vínsins með dökkan ávöxt í forgrunni, kirsuber og plómur, kryddangan, timjan og marjoram, viðurinn ristaður og bætir við dökku súkkulaði. Kröftugt, ungt og ferskt með þéttum tannínum, míneralískt í lokin. Gefið góðan tíma til að opna sig.
90%
3.299 krónur. Frábær kaup. Með grillaðri ribeye-steik.
-
9