
Bordeaux er það víngerðarhérað þar sem mörg af allra bestu vínum heims eru ræktuð og víngerðarmenn um allan heim reyna að leika leikinn eftir með því að rækta Bordeaux-þrúgurnar Cabernet Sauvignon og Merlot. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að betri Bordeaux-vín hafa verið stjarnfræðilega dýr upp á síðkastið eftir gífurlegar verðhækkanir síðustu áratugi. Það vekur því athygli þegar poppar upp virkilega gott Bordeaux-vín á vægast sagt viðráðanlegu verði.
Chateau Beaumont er í eigu japanska áfengisrisans Suntory sem einnig rekur hið fræga Chateau Beychevelle í St. Julien. Ekrur Beumont eru vissulega ekki í Grand Cru-flokknum en engu að síður Cru Bourgeois sem oft eru bestu kaupin í héraðinu. Þetta er gamalgróið vínhús, stofnað 1824 og undir það falla 105 hektarar, þar af 60% Cabernet.
2018 árgangurinn frá Beaumont er ljómandi góður, sígildur og fínn „claret“. Liturinn er dimmrauður með smá bláma og ávöxturinn er dökkur og stílhreinn, sólber, bláber, plómur, tóbakslauf, blýantsydd og viður. St´rúktúrinn er þéttur og fínn, tannín halda vel utan um vínið án þess að það verði of stíft og hrjúft, sýra gefur ferskleika. Enn ungt er farið er að bera á fyrstu þroskamerkjunum. Hefur „breed“ þótt þetta sé ekki grand cru. Umhellið endilega.
3.999 krónur. Frábær kaup. Þetta er stórkostlegur Bordeaux fyrir peninginn og líklega eitt af bestu rauðvínunum í sínum verðflokki. Gefum því fullt hús stiga fyrir frábært hlutfall verðs og gæða.
-
10