Pesto

Einhver vinsælasta pastasósa Ítalíu er án efa pesto , sem á rætur sínar að rekja til Lígúría-héraðs og er stundum kennd við hafnarborgina Genúa, eða pesto genovese. Líkt og svo margar aðrar gersemar ítalska eldhússins er pestó afskaplega einfaldur réttur og á færi flestra að búa til ljúffenga pestó- sósu. Raunar má segja að uppskriftirnar að pestó séu nokkurn veginn jafnmargar og þeir sem búa til pestó. Galdurinn er að nota fyrsta flokks hráefni. Séu þau ekki til staðar er hætt við að útkoman verði harla dapurleg.

Vissulega er hægt að kaupa tilbúið pestó í krukkum í flestum betri matvöruverslunum. Slíkt verksmiðjupestó kemst hins vegar ekki með tærnar þar sem ferskt pestó hefur hælana. Sú litla fyrirhöfn, sem pestó-framleiðsla útheimtir borgar sig því margfalt. Að auki er hægt að gera töluvert magn í einu og frysta má það sem ekki er notað strax eða geyma í ísskáp í einhvern tíma.

Basil er lykilhráefnið en önnur hráefni í pestó eru ólífuolía, furuhnetur, hvítlaukur, Parmesan-ostur og salt og pipar. Það sama gildir þar að nota verður bestu fáanlegu hráefni. Olían verður undantekningarlaust að vera extra- virgine , það er olía úr fyrstu pressun. Jafnframt borgar sig að finna góða, dýrari olíu en ekki einungis venjulega stórmarkaðsolíu.

Það er ekki til nein ein „rétt“ uppskrift að pestó. Hlutföll hráefnanna geta verið mjög mismunandi eftir því við hvaða uppskrift er stuðst. Hér er ein sem hefur reynst mér vel. Magnið má svo snikka til eftir þörfum, þetta er vænn skammtur:

Innihald:

  • Ferskt basil, 3-4 lúkur
  • 2-3 hvítlauksgeirar
  • 100 gr furuhnetur
  • 150 gr Parmesan
  • um það bil 3 dl ólífuolía
  • salt og pipar

Aðferð:

Hreinsið basil, þerrið. Myljið hnetur í matvinnsluvél, bætið basil og hvítlauk saman við. Næst er Parmesan bætt saman við og saltað og piprað. Þá er matvinnsluvélin sett á lægsta hraða og olíunni bætt við hægt og sígandi. Nú er hægt að bera sósuna fram eða setja á krukkur og geyma. Athugið að ef ekki á að nota sósuna strax er æskilegt að setja hana strax á ílát (til dæmis gamlar sultukrukkur) og loka fyrir þar sem pestóið missir lit ef það er lengi í snertingu við súrefni. Fyllið á krukkurnar með olíu ef þarf.

Þetta er sígild pasta-sósa og hentar vel með spagettí, tagliatelle eða linguine-pasta. Raunar á hún vel saman við allt pasta. Hana er gott að nota eina og sér með pasta, eða þá ásamt grænmeti, fiski (t.d. smálúðu) eða öðru sem manni dettur í hug. Pestó á einnig vel við kartöflur og er tilvalið með kartöflu-gnocchi.

Þessa grunnuppskrift má útfæra á óendanlega vegu. Nota má aðrar kryddjurtir en basil, t.d. steinselju eða óreganó. Í Toskana er steinselja gjarnan notuð og þá einnig valhnetur í stað furuhnetna. Góð blanda er steinselja og basil til helminga.

 

Deila.