Riesling við Rínarfljót

Flest þekktustu vínræktarsvæði Þýskalands liggja að fljótunum Rín og Mósel og má þar nefna Rheinpfalz, Rheinhessen, Rheingau og Baden. Öll hafa þau sín sérkenni allt eftir því hvar borið er niður. Stærst þessara svæða – og raunar umfangsmesta vínræktarsvæði Þýskalands – er Rheinhessen. Vínræktarsvæðið teygir sig yfir svæðið á hæðunum við Rín á milli borganna Mainz og Worms.

Aðstæður til vínræktar í Rheinhessen eru hvað bestar í kringum þorpin Nierstein og Oppenheim. Þetta eru lítil þorp, íbúar telja um sjö þúsund manns í hvoru, og er vínrækt megin atvinnugreinin þótt það verði einnig æ algengara að íbúar frá stærri borgum í nágrenninu á borð við Wiesbaden, Mainz og Frankfurt kjósi að setjast að í sveitakyrrðinni við Rín þótt það kosti hálftíma akstur í vinnuna og jafnvel klukkutíma þegar umferðarösinn er sem mest.

Vínin frá Nierstein og Oppenheim eru býsna ólík og má rekja það til mismunandi jarðvegs. Í kringum Nierstein er leirinn sendinn og rauðleitur og gefur af sér vín með mikinn þokka og fínleika þar sem ilmefni Riesling-þrúgunnar njóta sín til fulls. Rétt sunnann við Nierstein verða jarðvegsskil og við tekur dekkri og þyngri jarðvegur sem gefur af sér þyngri, kraftmeiri og áfengari vín.

Þarna er að finna margar frægar vínekrur. Til dæmis Niersteiner Glöck sem er elsta ekra Þýskalands sem vitað er um. Með því er ekki átt við að þarna hafi fyrsti vínviður Þýskalands verið gróðursettur heldur að þarna er um að ræða fyrstu ekruna sem vitað er um að hafi verið afmörkuð og nefnd og ræktuð undir því heiti. Má rekja elstu rituðu heimildir um vínrækt á Glöck allt aftur til ársins 742. Glöck er í ríkiseigu líkt og svo margar þekktar ekrur í Þýskalandi en svo kölluð Staatsliche Weingute, það er vínfyrirtæki í eigu einstakra sambandslanda, eru fyrirferðarmikil í þýskum víniðnaði.

Aðrar þekktar ekrur á þessum slóðum eru t.d. Niersteiner Oelberg og Oppenheimer Herrenberg og Oppenheimer Sackträger. Nöfn þessi eiga sér langa sögu og er Sackträger til dæmis kennd við þá stétt manna á miðöldum er hafði að vinnu að afferma prammana er lögðust að Rín og bera sekki upp brekkuna að þorpinu.

Bestu ekrurnar eins og Rote Hang, Oelberg og Sackträger er að finna í hlíðunum er snúa beint í suður. Hlýnandi loftslag hefur þó breytt ýmsu, til að mynda koma bestu þrúgurnar á þessum slóðum ekki lengur frá bröttustu brekkunum líkt og lengi var raunin. Úrkoma hefur minnkað verulega og sést það greinilega á Rín en yfirborð hennar er nú rúmum tveimur metrum fyrir neðan það sem það var fyrir 10-20 árum.

Þegar úrkoman minnkar verður vatnið dýrmætara ólíkt því sem áður var. Bröttustu brekkurnar sem halda illa vatni skiluðu umframvatni frá sér hér áður fyrr þegar úrkoma var meiri en nú er vandinn sá að þær ná ekki að halda nægu vatni í jarðveginum fyrir plönturnar. Það eru því aðrar ekrur, þar semm hallinn er minni, sem eru farnar að blómstra.

Það er forvitnilegt að smakka vín frá tveimur ekrum, hlið við hlið, þar sem hallinn er mismikill. Vínið frá brattari brekkunni er sýrumeira, þynnra og agressívara og það nær einungis flokkun sem Kabinett trocken. Vínið frá brekkunni þar sem hallinn er minni er allt mun þykkara, með meiri sætu í ávextinum og þægilegri sýru. Náði það að flokkast sem Spätlese. Þetta voru tvær ekrur hlið við hlið, sami jarðvegur, sömu plöntur og jafngamlar, með sama uppskerumagn. Einungis hallinn á brekkunni breytir jöfnunni.

Þýsku vínlöggjöfinni var breytt fyrir einum tveimur árum á þann veg að nú er leyfilegt að nota áveitukerfi þegar úrkoma er lítil en áður fyrr mátti einungis veita á fyrstu árin eftir að vínviðurinn hafði verið gróðursettur. Um leið og farið var að nota ávöxt af vínviðnum var ekki lengur heimilt að vökva. Þetta kemur þó að takmörkuðu magni á þessum slóðum. Engar vatnslindir eru uppi í brekkunum og það þarf því að aka tugþúsundum lítra upp á hæðirnar ef til stendur að vökva.

Rínardalurinn er breiður á þessum slóðum. Þar sem hann er hvað þrengstur, vestur af Mainz eru einungis nokkur hundruð metrar á milli hlíðanna en dalurinn breikkar verulega þegar áin beygir í suður frá Mainz og frá Nierstein er um 50 kílómetrar í hinn enda Rínardalsins en í þeim hlíðum er að finna vínhéraðið Hessische Bergstrasse.

Guntrum-fjölskyldum hefur starfað óslitið að vínrækt allt frá miðöldum þótt það hafi ekki verið fyrr en á nítjándu öld sem hún settist endanlega að í bænum Nierstein. Fyrir stuttu tók Konstantin Guntrum við stjórn fyrirtækisins úr hendi föður síns Louis Guntrum og er ellefta kynslóð Guntrum-fjölskyldunnar þar með komin við stjórnvölinn.

Höfuðstöðvar fyrirtækisins er að finna í fallegu húsi við bakka Rínar sem á sér þó nokkra sögu. Undir húsinu teygja sig vínkjallarar Guntrum-fjölskyldunnar eina sex hundruð metra, sem þykir kannski ekki mikið í héruðum á borð við Champagne, en er æði stór kjallari í Þýskalandi. Í kjallaranum eru vínin framleidd og geymd þótt í ljós komi við eftirgrennslan að flestar gömlu eikartunnurnar sem raðað er upp eftir göngunum hafa staðið tómar árum saman.

Víngerð fer í gegnum tískusveiflur eins og flest önnur framleiðsla og á níunda áratugnum sneru margir vínframleiðendur í Þýskalandi alfarið baki við gömlu tunnunum er notaðar höfðu verið við víngerð áratugum og jafnvel öldum saman og notuðu þess í stað alfarið stáltanka. Kosturinn við stáltanka var að hægt var að hafa betri stjórn á öllum þáttum víngerðarinnar, t.d. hitastiginu við gerjun, auk þess sem vínið þótti verða hreinna og tærara í ilm og bragði með því að sleppa snertingunni við viðinn.

Ekki var um að ræða litlar, nýjar tunnur, s.k. barrique, sem setja sterkan svip á vín sem í þær fer heldur gamlar ámur sem í sjálfu sér gefa ekkert bragð af sér lengur.

Þær hafa nú staðið tómar í mörg ár að því undanskildu er þær hafa verið fylltar af vatni til að koma í veg fyrir að viðurinn þorni upp og tunnurnar brotni saman. Konstantin Guntrum segist hafa staðið frammi fyrir því vali að ákveða hvort hann ætlaði hreinlega að henda tunnunum eða gera eitthvað við þær og hafi hann tekið ákvörðun um að nýta þær á nýjan leik. Það sé trú hans að með því megi oft ná fram góðum eiginleikum í víninu og hyggst hann hefja takmarkaða notkun á gömlu tunnunum á ný frá og með næstu uppskeru.

Elsti hluti kjallarans var áður hluti af umfangsmiklu gangnakerfi er lág á miðöldum frá kastalanum í Oppenheim yfir að varðturni í Nierstein. Þetta var mikið átakasvæði á miðöldum og kom oft fyrir að sveitir sátu um bæinn Oppenheim. Það var því mikilvægt fyrir bæjarbúa að hafa göng út úr þorpinu er lágu niður að Rín, t.d. ef menn þurftu að yfirgefa þorpið í flýti. Kastalinn var eyðilagður á sautjándu öld af sænskum hersveitum í þrjátíu ára stríðinu og er þessi hluti gangnanna eini hluti þeirra sem enn stendur.

Seinni tíma orrustur hafa einnig sett mark sitt á sögu þessa svæðis. Þorpin sluppu hins vegar við eyðileggingu í seinni heimsstyrjöldinni annars vegar vegna þess að þarna var ekki iðnaður sem var skotmark bandamanna og hins vegar vegna þess að íbúar drógu upp hvíta fána þegar bandarísku hersveitirnar nálguðust. Það voru bryndeildir Pattons sem hertóku Nierstein og höfðu þar viðvöl í nokkra daga áður en þær héldu yfir Rín í áttina að Frankfurt. Kom Patton sér upp skrifstofu í húsi Guntrum-fjölskyldunnar á meðan hann dvaldi í Nierstein og þar sem nú standa víngerjunartankar stóðu eitt sinn skriðdrekar í röðum þar sem hlaðið fyrir utan var notað til viðgerða og viðhalds áður en haldið var yfir Rín.

Þótt þetta svæði sé fyrst og fremst þekkt fyrir hvítvín eru einnig ræktuð rauðvín í Rheinhessen og sum þeirra eru mjög athyglisverð. Þarna má finna rauðvín úr þrúgum á borð við Dornfelder og jafnvel Cabernet Sauvignon. Þau bestu eru hins vegar að mínu þau sem byggja á þrúgunni Pinot Noir sem í Þýskalandi er nefnd Blauer Späburgunder og standast vel samanburð við vín framleidd úr sömu þrúgu í norðurhluta Frakklands s.s. í Alsace.

Það eru hins vegar hvítvínin sem mestu máli skipta og þegar um hágæðavín er að ræða fyrst og fremst þrúgan Riesling sem hér er á heimavelli þótt einnig sé Grauburgunder ræktuð með góðum árangri (þrúga sem flestir þekkja líklega sem Pinot Gris eða Pinot Grigio) og Sylvaner, sem nýtur sín ekki síst í sætvínum.

Líkt og áður sagði er fjölbreytileiki vínanna mikil allt eftir því hvar í hlíðunum þau eru ræktuð. Það er mikill munur á t.d. Niersteiner Bergkirche, þykkt og mikið með áberandi greip-angan, og Oppenheimer Sackträger með sínum dæmigerða sítrus og sítrónukeim. Árgangurinn skiptir líka lykilmáli líkt og ávallt á norðlægum ræktunarslóðum. 2001 og 2002 eru þannig klassískir Riesling-árgangar sem endurspegla ekrurnar sem þrúgurnar voru ræktaðar á einstaklega vel. Árangurinn 2003 er hins vegar nokkuð afbrigðilegur að því leytinu til að hann mun öflugri, áfengari og ávaxtameiri en hin dæmigerðu vín Rheinhessen.

Hin einstöku einkenni einstakra vínekra leiða óhjákvæmilega til þeirrar spurningar hvort ekki sé rétt að flokka þær með meira afgerandi hætti en gert er til þessa í Þýskalandi. Á betri vínum eru ekrurnar tilgreindar á flöskumiðum en það er hins vegar engin leið að meta hvort um venjulega ekru sé að ræða eða afbragðsekru. Ekkert „Grand Cru“ kerfi er til staðar líkt og til að mynda hefur þróast fram í Búrgund eða Bordeaux.

Í Rheingau hafa framleiðendur reynt að móta slíkt kerfi og eru bestu ekrurnar þar flokkaðar sem „Erste Gewächs“. Konstantin Guntrum segir að því miður hafi þessar tilraunir ekki tekist sem skyldi, til að mynda hafi þýskum vínframleiðendum ekki tekist að ná samstöðu um það hvaða heiti bæri að nota á þessa skilgreiningu. Á öðrum svæðum sé að finna skilgreiningar á borð við „Erste Lage“ og „Grosser Gewächs“.

„Ef markmiðið var að flækja kerfið enn frekar en nú er orðið gagnvart neytendum þá tókst það. Það er skynsamlegt að skilgreina vínræktarsvæðin út frá því að ákveðnar ekrur gefa að jafnaði af sér betri vín en aðrar. Það hefði hins vegar átt að samræma þetta milli héraða. Að mörgu leyti er Þýskaland nú í sömu stöðu og Ítalía fyrir um 20 árum þar sem margir eru farnir að framleiða sín bestu vín framhjá vínlöggjöfinni.“

Smökkunin er komin út í eldri vín, til dæmis Niersteiner Bergkirche Spätlese frá 1985 og Oppenheimer Reisekahr Riesling Spätlese frá 1959. Það sem slær mann er hversu ung þau eru og þá ekki síður vínið frá 1959. Það er enginn þreyta í lit þeirra og þótt ilmur sé þroskaður þá er enn mikil og lifandi sýra í munni sem gefur til kynna að vínið eigi þó nokkuð eftir.

Í framhaldi af þeim orðum Konstantins Guntrums að Þýskaland væri í svipaðri stöðu og Ítalía fyrir tveimur áratugum spyr ég hann hvort hann muni þá stefna að því að framleiða einhvers konar „Super-Niersteiner“-vín rétt eins og vínframleiðendur í Toskana hófu framleiðslu „Super-Toskana“-vína. Hvernig myndi hann gera slíkt ofurvín?

„Í fyrsta lagi er ljóst að þetta yrði vín úr Riesling. Það yrði af bestu ekrunum uppskerumagnið lítið. Hins vegar tel ég einnig að þessi gömlu vín sem við erum að smakka segi mikla sögu. Ég hef oft velt því fyrir mér og hef spurt faðir minn af því hvað hefði verið öðruvísi á þessum árum því maður sér ekki öll vín Þýskalands lifa þetta lengi. Það merkilega er líka að oft voru þetta vín sem voru miðlungs að gæðum en náðu að eldast með stórkostlegum hætti og blómstra jafnvel eftir 50-60 ár. Ég held að stór hluti skýringarinnar sé vínviðurinn sem notaður var á þessum tíma. Nýju afbrigðin sem nú eru uppistaða ræktunarinnar eru ekki eins góð hvað þetta varðar. Þetta eru afkastameiri runnar en í gamla daga en í staðinn verða víngerðarmennirnir að klippa af þeim í byrjun sumars til að draga úr þrúgumagninu á hverjum runna. Ég held að ef við færum í alvöru að velta fyrir okkur einhvers konar ofurvíni þá yrðum við að skoða þetta atriði,“ segir Konstantin Guntrum. Hann veltir Riesling-víninu frá 1959 í glasinu og segir: „Ef þú myndir spyrja mig hvert mitt endanlega markmið væri þá væri það vín sem þetta. Það er hins vegar ólíklegt að ég fái sjálfur tækifæri að njóta slíkra vína fimmtíu ára gamalla,“ segir Konstantin brosandi.

 

Deila.