Allt á fullu hjá Aurelio Montes

Aurelio Montes hefur fyrir löngu unnið sér sess sem þekktasti víngerðarmaður Suður-Ameríku. Hann var m.a. valinn víngerðarmaður árasins í Chile árið 1995. Montes, sem fæddist í Santiago árið 1948 starfaði í rúman áratug sem víngerðarmaður hjá Undurraga, þá gerðist hann yfirvíngerðarmaður Vina San Pedro og starfaði þar allt til að hann stofnaði sitt eigið vínfyrirtæki – Montes – ásamt nokkrum félögum.

Velgengni þeirra hefur verið ævintýranleg og fyrirtækið heldur áfram að vaxa um 15% á ári. Það hefur árum saman verið með helstu vínfyrirtækjum landsins og vakið athygli ekki einungis fyrir toppvín sín, Cabernet-vínið M og Syrah-vínið Folly, heldur ekki síður fyrir hina vönduðu Montes Alpha-línu.

Aureleio Montes er nýjungagjarn og alltaf að þróa fram ný ræktunarsvæði, ný vín. Hann var einn sá fyrsti til að uppgötva þau sóknarfæri sem var að finna í Colchagua-dalnum en það er nú orðið eitt mikilvægasta vínhérað landsins. Sömuleiðis var M eitt fyrsta ofurvínið frá Chile og Folly sömuleiðis hið fyrsta úr Syrah.

Nýjasta afrek hans heitir Purple Angel og er vín úr þrúgunni Carmenere. Þrúgurnar koma að helmingi til frá Apalta-ekrunni í Colchagua og að helmingi frá nýjum ekrum fyrirtækisins á svæðinu Marchigue,sem er nær ströndinni. „Apalta er heitara svæði og ávöxturinn þar meiri og tannískari. Marchigue-þrúgurnar einkennast hins vegar af meiri léttleika og lífi. Að auki set ég 8% af Petit Verdot í blönduna en Carmenere þarf að mínu mati félaga til að njóta sín til fulls.“

Ræktun á Carmenere-þrúgunni er óveruleg utan Chile. Hún á rætur sínar að tekja til Bordeaux en er nú fyrst og fremst að finna í Suður-Ameríku. Montes segir Carmenere mikilvæga þrúgu fyrir Chile og segist vera sannfærður um að hún geti orðið eitt af helstu táknum chilenskrar víngerðar. Það sé hins vegar flókið að gera góð vín úr Carmenere og því miður sé of mikið um miðlungs Carmenere-vín í Chile. „Það tók okkur tíu ár að þróa fram Purple Angel. Við þurftum þann tíma til að feta okkur áleiðis að víni sem ég væri sáttur við.“

Það var stór ákvörðun á sínum tíma er Montes ákvað að færa vínrækt fyrirtækisins frá Curico þar sem hún byggði á gömlum merg yfir í óbyggðirnar í Apalta. Er hann sáttur við hvernig til hefur tekist? „Vínin frá Apalta einkennast frekar af fágun en afli. Við vorum sannfærðir um það á sínum tíma að þetta svæði hentaði betur stíl okkar vína. Hins vegar ræktuð við enn hvítu þrúgurnar í Curico.“

Annað svæði sem Montes hefur hafið ræktun á er Leida, sem er suðvestur af vínhéraðinu Casablanca fyrir norðan höfuðborgina Santiago. „Þar munum við þróa næsta verkefni okkar en ég stefni að því að gera hvítt ofurvín sem verður byggt á Chardonnay. Vínin frá Leida eru ferskari í ávextinum og með meiri steinefnakeim en vínin frá Casablanca,“ segir Montes.

„Chile teygir sig yfir mikið svæði og býður upp á einstaklega fjölbreytileg skilyrði til víngerðar. Við höfum undanfarið keypt nokkuð af þrúgum frá Bio-Bio sem liggur mjög sunnanlega og spurning hvaða framhald verði á því.

En þrátt fyrir fjölbreytileika Argentínu hefur Montes einnig fjárfest í Argentínu, hinum megin við Andesfjöllin. „Það er mjög spennandi svæði fyrir mig sem víngerðarmann. Það er stórkostlegt að sjá hversu ólík víngerðarsvæði Chile og Argentína eru þrátt fyrir landfræðilega nálægð. Chile-vínin eru ávaxtameiri og glaðari. Þau argentínsku alvarlegri og þyngri. Ég kann virkilega að meta bragð þeirra og hversu tannísk en jafnframt mjúk þau eru. Ég líki þeim stundum við marmarasúlum, áferðin er slétt en þau er gegnheil.“

Aðstæður til vínræktar eru mjög frábrugðnar í Argentínu. Í Chile rignir á veturna en á sumrin sést varla ský á himni svo mánuðum skiptir. Í Argentínu eru veturnir þurrir og það rignir mikið á sumrin. „Síðastliðið sumar taldi ég 22 rigningardaga í Mendoza, þar sem við ræktum vínin í Argentínu. Það kemur hins vegar ekki að sök. Loftslagið er ekki eins rakt og í Chile sem liggur að hafi og því veldur rigningin ekki hættu á myglu í þrúgunum.“

Í upphafi keypti Montes þrúgurnar til framleiðslu á argentínska víninu sínu, sem heitir Kaiken, en nú hefur hann því til viðbótar keypt 70 hektara af ekrum og þegar gróðursett vínvið á helmingi landsins. Við erum einnig með lóð fyrir víngerðarhús en allt ræðst þetta að viðtökum markaðarins. Þær hafa hins vegar verið frábærar fram að þessu.“

Að því búnu fer Montes að ræða um enn eitt verkefnið sem hann er með á prjónunum, rósavín í hæsta gæðaflokki úr Syrah-þrúgunni. Það er ljóst að hann er ekki á leið í helgan stein.

Deila.