Kalifornía – Sonoma

Sonoma er „hitt“ fræga héraðið í Kaliforníu og liggur nær Kyrrahafinu. Þarna var hjarta bandarískrar vínræktar allt fram að bannárunum og þar er enn að finna fjölmörg gömul og rótgróin fyrirtæki á borð við Buena Vista og Simi, sem eiga sér langa sögu á bandarískan mælikvarða. Fyrirtæki þar berast ekki jafnmikið á og í Napa og vínræktin er dreifð um mun stærra svæði. Vínin eru svipuð að gæðum en mýkri ef eitthvað er vegna ögn svalara loftslags. Veðurfarsleg skilyrði í Sonoma eru hins vegar mun fjölbreyttari en í Napa og því býður héraðið upp á fleiri víddir í vínframleiðslu. Á svölum svæðum á borð við Russian River Valley og Sonoma Valley koma einhver bestu Chardonnay og Pinot Noir-vín Bandaríkjanna auk þess sem finna má stórkostleg vín úr Sauvignon Blanc. Meðal þekktra smærri framleiðenda sem þar rækta þrúgur sínar eru Kistler, sem framleiðir einhver bestu Chardonnay-vín svæðisins og Rochioli er framleiðir eftirsóttan og einstakan Pinot Noir og Sauvignon Blanc.

Framleiðendur í Sonoma eru yfirleitt smærri en í Napa (ef frá er talinn risinn Gallo) og aðstæður að því leytinu til evrópskari. Dalurinn býður upp á endalausa möguleika í ferðamennsku og fjölmargar ökuleiðir um fagrar sveitir fullar af vínbúgörðum er oftar en ekki bjóða upp á smökkun og aðstöðu til lautarferða.

Dry Creek Valley liggur inn af Russian River Valley. Landslag er flatara og þar myndast kjöraðstæður fyrir þrúgur á borð við Zinfandel. Ekki síst er vert að hafa augun opin ef menn rekast á Old Vine Zinfandel, en til að mega nota það heiti verða þrúgurnar að koma af vínvið sem er að minnsta kosti 50 ára gamall. Hins vegar má hér og þar finna Old Vine Zinfandel af vínvið, sem er rúmlega hundrað ára. Samþjöppuð og mögnuð vín með einstaka bragðdýpt. Innsta og heitasta svæði Sonoma er svo loks Alexander Valley en ræktunarskilyrði þar eru mjög svipuð og í Napa, að mati margra jafnvel betri. Þar nýtur Cabernet Sauvignon sín til fulls og gefur af sér tröllvaxin en jafnframt glæsileg vín

Deila.