Madrid – (matar)höfuðborg Spánar

Þrátt fyrir að Madríd sé stærsta og líklega líflegasta borg Spánar er hún ekki sú sem Íslendingar þekkja best. Við höfum í gegnum árin vanið komur okkar til strandlengjunnar með fram Miðjarðarhafinu og spænska höfuðborgin í miðju landsins er gersemi sem margir eiga enn eftir að uppgötva.

Það er þó full ástæða til. Ekki einungis er Madríd með mest heillandi höfuðborgum Evrópu heldur mætti jafnframt færa rök fyrir því að hún sé einnig matarhöfuðborg Spánar, þar sem hægt er að njóta til fulls alls þess dásamlega er spænska eldhúsið hefur upp á að bjóða – þótt vissulega sé samkeppnin við Barcelona og Bilbao hörð þegar kemur að matarmenningunni.

Madríd iðar af lífi allan sólarhringinn. Miðborgin er full af fólki flesta daga fram undir morgun og þá alls ekki einungis ungmennum að skemmta sér. Það er ekki óeðlilegt að sjá fólk á öllum aldri, frá kornabörnum upp í virðulega eldri borgara rölta um strætin eftir góða máltíð þótt klukkan sé eitt, tvö að nóttu í miðri viku. Matartími Spánverja er ólíkur því sem við eigum að venjast og kvöldverður hefst oftar en ekki ekki fyrr en um tíuleytið að kvöldi.

Og það er úr nógu að velja í Madríd. Það er ekki mikið um alþjóðlega veitingastaði, þótt vissulega sé hægt að finna einn og einn ágætan franskan, austurlenskan eða ítalskan veitingastað. Nær allir veitingastaðir Madríd-borgar eru spænskir en þeir endurspegla líka allt það frábæra sem Spánn hefur upp á að bjóða.

Ekki síst geta tapas-unnendur notið sín til fulls því vart verður þverfótað fyrir veitingastöðum og börum er bjóða upp á litla rétti í bland við glas af víni eða bjór.

Helstu túristagildrurnar sem ber að forðast eru á Plaza Mayor í hinum „austurríska“ hluta Madríd er reistur var á þeim tíma er Spánarkonungur leiddi Habsburg-konungdæmið. Vissulega eru útiveitingastaðirnir þar sjarmerandi en fæstir ef nokkur bjóða upp á fæði og verð er geta keppt við veitingastaðina allt um kring. Þetta er hins vegar afskaplega fallegt torg með iðandi mannlífi og því gaman að setjast niður og virða allt fyrir sér.

Það er raunar hægt að fá mjög fínan mat á þessum slóðum til dæmis á Los Galayos sem er í hliðargötu við torgið. Staðurinn er rómaður fyrir mjólkurgrísinn – sem reyndist mjög góður – og sömuleiðis stóð Paella í annarri heimsókn meira en undir væntingum. Hægt er að sitja á torginu sjálfu, á stéttinni fyrir utan staðinn eða í einhverjum af hinum fallegu matsölum er teygja sig um tvær byggingar. Þetta er túrístastaður en heimamenn sækja hann ekki síður og maturinn er fínn.

Sé tilgangurinn fyrst og fremst að finna góðan matsölustað í miðborginni er hins vegar betra að halda sig við göturnar er liggja að Plaza del Sol og á og í kringum Plaza del Sta. Ana. Þar má finna marga litla og ódýra staði er bjóða upp á einfaldan og heiðarlegan spænskan mat til dæmis í götunni Calle de Alvarez Gato rétt norður af Sta. Ana. Fyrir einfalt umhverfi á þessu svæði en toppgæði má veðja á veitingastaðinn La Bola (Bola 5 – engin greiðslukort) og tapasbarinn Quitapenas (Postas, 15).

Ef haldið er vestur breiðgöturnar Gran Via eða Calle Acalé er hægt að setja stefnuna á staði í hærri klassa. Á Calle de Infantas er að finna staðina Wokcafé, einn nútímalegasta pan-asíska veitingastað Madríd þar sem maturinn reyndist jafnt einstaklega góður sem ódýr og Ex Libris, nýr veitingastaður er býður upp á stílhreint umhverfi og nútímalega útfærðan og góðan spænskan mat ásamt ágætum vínlista.

Flestir Madríd-farar heimsækja hið stórkostlega Prado, helsta listasafn Spánar og verða eflaust svangir af göngunni um ganga þess. Þá er gott að vita af því að nokkurn veginn gegnt safninu er ágætis, nútímalegur tapas-bar er heitir La Taperia og er að finna á Plaza Plateria Martinez. Látið samt ekki stafsetninguna á ensku útgáfunni af matseðlinum fæla ykkur frá því samkvæmt henni er boðið upp á kanaríska páfa og grillaða kjúklingabændur. Er þar átt við kanarískar kartöflur (orðið papas er í spænsku notað jafnt yfir kartöflur sem kaþólska páfa) og steikta kjúklingabændur en í því tilviki mun vera átt við að kjúklingarnir hafi verið ræktaðir við náttúrulegar aðstæður á bóndabæjum.

Vilji menn hins vegar njóta matarmenningar Madríd-borgar til fulls er réttast að yfirgefa gömlu miðborgina og halda í hverfið Salamanca. Þar er ekki einungis að finna flottustu verslanir borgarinnar heldur einnig flesta af bestu veitingastöðunum. Ég mæli sérstaklega með fjórum þótt marga fleiri mætti nefna. Það er eiginlega skylda fyrir Madríd-fara að fara á La Giralda þar sem boðið er upp á flest það besta er Spánn hefur upp á að bjóða, rækjur, humar, saltfisk, skinku og frábæra Arroz Caldoso Marinera, eins konar blauta paellu með sjávarfangi. Séu menn meira fyrir kjötið er nauðsynlegt að koma við á Mesón Cinco Jotas eða j-in fimm. Það er jafnframt þekktasta vörumerkið á Spáni fyrir Íberíuskinkuna heimsfrægu. Biðjið um disk af jamón, annan af llomo (þurrkaða svínalund), glas af þurru sérríi með og njótið. Unnar kjötvörur gerast ekki betri í heiminum!

Á veitingahúsinu Taberna de la Daniela (General Pardinas, 21) í Salamanca er líka hægt að fá eitthvað besta Cocidos Madrilenos sem í boði er í höfuðborginni. Cocidos Madrilenos er gamall, hefðbundinn réttur, eins konar kássa eða kjúklingabaunasúpa með margvíslegu kjöti. Þetta er ekkert léttmeti og á Taberna de la Daniela kemur rétturinn í þrennu lagi, súpa sér, baunir og grænmeti sér og kjötið sér. Algjört möst í Madrid!

Fyrir algjöra toppmatargerð er staðurinn Goizeko (Villanueva, 34) líklega skynsamlegasta valið. Þar ræður einn besti baskneski kokkur Spánar ríkjum og réttir eru bornir fram á tveimur hæðum í glæsilegu en látlausu umhverfi þar sem mild birta og ljósgulir veggir mynda þægilega stemningu. Vissulega nokkuð dýr en býður jafnframt upp á stórkostleg hráefni og nútímalega matargerð þar sem sjávarfangið er ríkjandi líkt og á flestum betri veitingastöðum Spánar; sæeyru, saltfiskur, kolkrabbi og rækjur af öllum stærðum og gerðum.

Vilji menn hins vegar stórkostlega matarupplifun í einfaldara umhverfi er Los Asturianos á Vallehermoso 94 frábær kostur. Við fyrstu sýn virðist staðurinn ekki mjög frábrugðin öðrum börum við þessa götu. Svo er hins vegar ekki. Þetta er agnarsmár staður sem býður upp á einhvern besta mat og besta vínúrvalið í Madríd. Setjist við eitt af borðunum á gangstéttinni fyrir utan (það dregur úr umferðinni eftir níu á kvöldin) og látið staðarhaldana ráða ferðinni í matnum. „Mamman“ í eldhúsinu (hún Júlia er raunverulega mamman í fjölskyldunni sem rekur  staðinn) töfrar þá fram hvert snilldarverkið á fætur öðru – pylsur, skinku, osta, saltfisk, skelfisk, baunarétti, pottrétti….og þið látið sonin velja vínið og þið eruð í öruggum höndum. Og ekki spillir fyrir að verðlagið er hagstætt fyrir þá sem eiga sitt í íslenskum krónum.

 

Deila.