Sikileyskur kjúklingur með sítrónu og möndlum

Þessi sikileyska uppskrift er fersk og svolítið framandi. Það þarf að marínera kjúklinginn, helst yfir nótt, og því nauðsynlegt að skipuleggja þessa máltíð fram í tímann. Í uppskriftina þarf eftirfarandi:

  • Kjúklingur, bútaður niður í átta til tíu bita eftir stærð kjúklingsins.
  • 10 hvítlauksrif, söxuð gróft
  • Fersk myntublöð, hnefafylli, söxuð
  • 3 sítrónur
  • 1 dl hvítvín
  • 2 dl kjúklingasoð
  • Möndluflögur, 100 grömm
  • Ólívuolía
  • Spaghettí
  • Salt og pipar

Við byrjum á því að útbúa löginn sem kjúklingurinn á að marínerast í. Blandið saman saxaða hvítlauknum, söxuðu myntunni og safanum úr sítrónunum. Bætið við matskeið af ólívuolíu, salti og pipar. Látið kjúklinginn liggja í leginum í ísskáp í sólarhring. Það er þægilegt að setja allt í góðan plastpoka eða þétt plastílát.

Takið kjúklingabitana úr leginum og haldið leginum til haga.

Byrjið á því að rista möndluflögurnar á þurri pönnu þar til að þær byrja að verða brúnar. Takið af pönnunni og setjið til hliðar.

Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklingabitana. Lærin og leggirnir þurfa lengri tíma en bringubitarnir og gott er að byrja á þeim fyrst og bæta síðan bringubitunum við.

Eftir að kjúklingurinn hefur brúnast á pönnunni í um 15 mínútur er hann tekinn af pönnunni, settur í eldfast form og inn í 200 gráðu heitan ofn.

Hellið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið það niður um helming. Bætið þá kjúklingasoðinu við ásamt afganginum af kryddleginum og sjóðið niður í um 5 mínútur. Saltið og piprið ef þarf.

Á meðan þetta allt er gert er spagettíið soðið. Þegar sósan er tilbúin er henni blandað saman við spaggetíið ásamt ristuðu möndlunum og þetta borið fram með kjúklingnum.

Með þessu hentar hvítvín frá Sikiley vel, t.d. Santa Cristina Pinot Grigio.

 

 

Deila.