Flor de Crasto 2007

Flor de Crasto er einfaldasta vínið úr smiðju ein þekktasta vínhús Douro í Portúgal en áður hefur verið fjallað hér um millitýpuna Crasto, sem einnig er fáanleg í vínbúðunum. Þetta er yngsta vínið, óeikað og auðvitað ódýrara en stærri bræður sínir.

Engu að síður er Flor de Crasto 2007 vandað vín. Það hefur svolítið agressíva heita angan af þroskuðum kirsuberjum og krækiberjum, kryddað og jarðbundið. Í fyrstu hart, tannískt og svolítið hrátt. Vínið þurfti að standa í nokkra stund áður en það sýndi sína bestu hlið og því gæti umhelling verið skynsamleg, þótt um þetta einfalt vín sé að ræða. Heitt og töluvert um sig í munni, kryddað með góðri fyllingu og lengd.

Enn eitt vínið sem sýnir hversu spennandi þrúgur Portúgal hefur að geyma þótt nöfnin Tinta Roriz, Touriga Francesa og Touriga Nacional séu ekki á allra vörum…ennþá.

Fínt með grilluðu kjöti, pott- eða pastaréttum tómötum og steiktum saltfiski.

1.695 krónur

 

 

Deila.