Parmesanfiskur

Þessi fína uppskrift barst okkur frá Hlíðartúninu í Mosfellsbæ rétt eins og uppskriftin að spænsku kjötbollunum. Hún olli ekki vonbrigðum frekar en kjötbollurnar!

Fyrir fjóra þarf eftirfarandi:

  • 600-700 gr beinhreinsuð og roðlaus  flök af t.d. ýsu, steinbít eða þorski
  • 1½ bolli parmesanostur, rifinn
  • 1 bolli brauðrasp. Best er að nota til helminga venjulegt brauðrasp og rasp úr grófu brauði. Ristið brauðið, látið kólna og myljið í matvinnsluvél.
  • 2 egg
  • Mjólk
  • Hveiti
  • Sítrónupipar

Skerið fiskinn í bita áþekkum Opal-pökkum að stærð. Pískið eggin saman við skvettu af mjólk. Blandið saman 1 bolla af rifnum parmesan og brauðraspinu. Veltið fiskbitunum upp úr hveitinu, þá eggjunum og loks parmesan-raspinu. Þrýstið raspinu aðeins inn í fiskinn með puttunum.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og steikið fiskbitana stutta stund á hvorri hlið eða þangað til að þeir taka lit. Kryddið með sítrónupipar. Raðið fiskbitunum í ofnfast fast og stráið afganginum af parmesan-ostinum yfir.

Setjið í 170 gráða heitan ofn og bakið í nokkrar mínútur eða þar til að osturinn byrjar að bráðna.

Berið fram með pönnusteiktum kartöflum og grænu salati.

Með þessu létt og milt hvítvin. T.d. hið spænska El Coto Blanco eða hið ítalska Bertani Soave.

 

 

Deila.