Baron de Ley Reserva 2003

Baron de Ley í Rioja á Spáni er tiltölulega ungt vínhús, stofnað um miðjan níunda áratug síðustu aldar og fyrsta vínið kom í sölu 1990. Það hefur hins vegar náð að marka sér sess sem eitt af fremstu „nýbylgju“-vínhúsunum þar sem víngerðarmennirnir horfa ekki síður til hinna stóru alþjóðlegu héraða á borð við Bordeaux en hinna gömlu hefða Rioja. Víngarður Baron de Ley var skipulagður sem eins konar „chateau“ með afmörkuðum vínekrum í stað þess að blanda saman víni af ekrum á víð og dreif um Rioja líkt og hefð er fyrir.

Baron de Ley Reserva 2003 er Tempranillo-vín líkt og önnur Rioja-vín. Heit og þykk angan af þroskuðum kirsuberjum og plómum. Eikað með keim af reyk, vanillu, tóbaki og nokkuð kryddað, þarna má greina kardimommur og vott af negul. Þykkt og kraftmikið í munni, fókuserað og rismikið með silkimjúkum tannínum.

Fjölhæft matarvín, að sjálfsögðu nautakjöt en einnig lamb, hreindýr og spænsk skinka. Og hvers vegna ekki með saltfiski.

2.599 krónur.

 

Deila.