Guacamole

Guacamole er líklega með þekktustu réttum mexíkóska eldhússins og nýtur gífurlegra vinsælda sem ídýfa og er einnig gott meðlæti með nokkrum réttum. Það er hægt að kaupa tilbúið guacamole í flestum búðum en eins og yfirleitt er raunin fær maður bestu niðurstöðuna með því að gera það sjálfur úr góðum, ferskum hráefnum. Það tekur líka bara nokkrar mínútur að útbúa það.

Þetta þarf:

  • 2 þroskaðir avocado, þreifið aðeins á þeim, þeir eiga ekki að vera grjótharðir heldur gefa aðeins eftir án þess að vera alveg linir.
  • 1 lime
  • 2 tómatar, fræhreinsaðir og fínsaxaðir
  • 1/2 rauðlaukur, fínsaxaður
  • 1 grænn chilipipar, fínsaxaður
  • 2-3 msk af söxuðum ferskum kóríander
  • salt

Skerið avocado-ávextina í tvennt á lengdina inn að steini. Opnið ávöxtinn og takið steininn út. Rennið teskeið meðfram hýðinu til að losa ávaxtakjötið frá. Maukið avocado-inn vel með gaffli og setjið í skál. Blandið saxaða lauknum, tómötunum, chili og kóríander saman við. Pressið safan úr lime-ávextinum yfir og blandið saman. Saltið eftir smekk.

Geymið í ísskáp í smástund áður en það er borið fram. Best er að útbúa guacamole sem næst þeim tíma sem maður ætlar að bjóða upp á það.

Deila.