Beronia Reserva 2004

Árið 2004 var afbragðsgott í Rioja og stofnunin Consejo Regulador sem er hin opinbera eftirlitsstofnun héraðsins flokkar hann sem „stórkostlegan“. Að flestra mati er þetta einhver besti árgangur síðari tíma í Rioja, ekki ósvipað og 2005 var viða í Frakklandi. Það er því ástæða til að gefa Rioja-vínum frá þessum árgangi gaum, þau eru oftar en ekki verulega góð, ekki síst vínin frá góðum vínhúsum.

Beronia Reserva 2004 er dæmi um slíkt vín. Kröftugt með krydduðum rauðum og sultuðum berjaávexti, töluvert af vanillu, dökku súkkulaði og þessari kjötkenndu, blóðugu leðurangan sem stundum brýst fram í góðum Rioja-vínum og fær mann til að hugsa um rauðar nautasteikur. Þykkt og þétt með sætum og krydduðum ávexti sem manni finnst maður nánast geta tuggið.

Með góðri nautasteik.

2.398 krónur.

 

 

Deila.