Georges Duboeuf Beaujolais 2007

Vínin frá Beaujolais hafa átt svolítið undir högg að sækja upp á síðkastið vegna þess hvernig vínbændur þar blóðmjólkuðu vinsældir Nouveau-vínanna þar til neytendur gáfust hreinlega upp. Beaujolais-vín hurfu nær alfarið úr hillum vínbúða hér en nú eru þau sem betur fer komin aftur. Þetta geta nefnilega verið virkilega ljúf vín.

George Duboeuf Beaujolais 2007 er dæmigert Beaujolais-vín, brakandi fersk angan af jarðarberjum og banönum í bland við þægilega ostalykt (þessi svolítið sveitalega lykt sem mætir manni þegar gengið er inn í ostabúð). Það hefur góðan ávöxt áfram í munni, þurrari en lyktin gefur til kynna. Líkt og flest vín úr Gamay-þrúgunni nýtur það sín hvað best örlítið kælt en þó ekki kallt. Segjum rétt um átján gráðurnar.

Með léttum réttum, pasta og kjúklingaréttum og svo auðvitað mildum ostum, t.d. ferskum Brie.

1.797 krónur

 

 

Deila.