Risotto með kjúkling

Hér er enn einn af þessum yndislegu ítölsku réttum sem maður bókstaflega fellur fyrir og eldar síðan aftur og aftur og aftur. Þessi uppskrift kemur frá Norður-Ítalíu og heitir Risotto Sbirraglia eða Kopar-Risotto á ítölsku sem vísar til þess fallega lits sem einkennir réttinn.

 • 500 g kjúklingabringur eða læri (úrbeinuð)
 • 500 g Arborio-hrísgrjón
 • 100-150 g beikon (eitt lítið bréf)
 • 2 gulrætur, flysjaðar og skornar í litla teninga
 • 1-2 sellerístilkar, skornir í litla teninga
 • 1 laukur, saxaður
 • 1 dl tómataþykkni
 • 1 dl hvítvín
 • 1 líter kjúklingasoð, heitt
 • Parmigiano-ostur
 • salt og pipar

Byrjum á því að gera grunn – eða soffrito eins og það heitir á ítölsku. Skerið beikonið í litla bita og steikið á pönnu í smá ólívuolíu. Bætið grænmetinu út á pönnuna og steikið þar til það fer að taka á sig lit, svona um það bil 5-7 mínútur. Bætið þá kjúklingabitunum út á pönnuna og steikið í aðrar fimm mínútur eða rúmlega það. Hellið þá hvítvíninu út, hrærið aðeins með trésleif til að hreinsa það sem hefur fests við botninn, bætið tómataþykkninu saman við, saltið og piprið. Takið af pönnunni og geymið.

Hreinsið pönnuna. Hitið 2-3 msk af ólívuolíu á pönnunni og hitið grjónin í olíunni þar til að þau fara að „smella“. Bætið nú kjúklingablöndunni aftur saman við og byrjið að ausa heitu kjúklingasoðinu yfir. Látið malla á vægum hita. Ef hann er of mikill gufar vatnið bara upp án þess að grjónin nái að sjúga það í sig. Ef þarf meiri vökva en 1 lítra er hægt að nota vatn.

Þegar grjónin eru tilbúin, enn örlítið stökk, eftir um það bil 15-20 mínútur, er slökkt á hitanum. 2-3 dl af rifnum parmigiano er hrært saman við, lok sett á pönnuna og réttinum leyft að jafna sig í nokkrar mínútur.

Borið fram með góðu stökku salati, nýbökuðu brauði og auka parmigiano-osti.

Berið fram með grænu salati, heitu brauði og auðvitað góðu ítölsku Toskana-víni á borð við Confini Chianti Classico eða Dievole Broccato.

Deila.