Bengalkjúklingur – Murgir Rezala

Þessa uppskrift fengum við frá Chandriku á Austur-Indíafjelaginu en rétturinn kemur upprunalega frá Bengal í norðausturhluta Indlands.

 • 500 g kjúklingabringur
 • 3 laukar, saxaðir
 • 3 grænir chili-belgir, fræhreinsaðir og saxaðir
 • 1 dl jógúrt eða sýrður rjómi. Ef þið notið jógurt er ráðlegt að þykkja hana með 1 msk af hveiti.
 • 1 msk rifin engiferrót
 • 1 msk maukaður hvítlaukur
 • 4 kardemommur
 • 5 negulnaglar
 • 2 kanilstengur
 • salt og pipar
 • 20 g rúsínur (má sleppa)

3 msk Ghee þetta er svokallað skírt smjör. Hitið smjör á pönnu og látið malla í smá tíma án þess þó að það fari að dökkna. Vatnið í smjörinu á að gufa upp og eggjahvítuefnin að setjast til botns. Hellið síðan smjörinu yfir í annað ílát í gegnum grisju. Skírt smjör er hitaþolnara en venjulegt smjör. Það er hægt að svindla og nota blöndu af olíu og smjöri eða þá bara ólívuolíu.

Aðferð:

Skerið kjúklingabringurnar í bita. Blandið saman engifer, hvítlauk, jógúrt og salti. Látið kjúklinginn marinerast í leginum í nokkrar klukkustundir.

Hitið ghee og bætið kanilstöngunum, kardemommum og negulnöglum út í. Steikið í 3-4 mínútur á miðlungs hita. Bætið nú saxaða lauknum og chili út á pönnuna, lækkið hitann aðeins og steikið áfram þar til laukurinn er orðinn mjúkur.

Bætið kjúklingnum út á pönnuna ásamt jógúrtleginum. Hitið upp að suðu og lækkið þá hitann. Látið malla þar til sósan fer að þykkna og kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bætið við rúsínunum ef vill

Berið fram með basmati-grjónum og Naan-brauði.

Ferskt hvítvín með t.d. Alamos Chardonnay eða Montes Sauvignon Blanc

.

 

Deila.