Trimbach Pinot Gris 2005

Trimbach-fjölskyldan hefur komið við sögu vínræktar í Alsace í á fimmtu öld. Það var hins vegar „ekki fyrr“ en á nítjándju öld sem að vínin frá Trimbach slógu rækilega í gegn þegar Fréderic-Emil Trimbach fór með nokkur sýnishorn á heimssýninguna í Brussel árið 1898. Alla tíð síðan hefur þetta fjölskyldufyrirtæki í bænum Ribeauville verið í röðum fremstu framleiðenda héraðsins.

Einkenni Trimbach-vínanna er þroskaður og mikill ávöxtur, ber sem eru tínd seint og ná fullri dýpt viðkomandi þrúgu en þó aldrei framleitt með neinum votti af sætu.

Trimbach Pinot Gris Reserve 2005 er flottur fulltrúi Trimbach-vínanna. Þykkur og fallegur litur. Fíkjur, ferskjur, hunang og þroskuð epli í ilmkörfunni. Þurrt og feitt í munni með örlítilli beiskju í þroskuðum ávextinum.

Með hvítu kjöti, kjúkling eða kálfi. Með ostum. Tilvalið með „fusion“-matargerð.

2.899 krónur

 

Deila.