Timjan-kartöflur

Þessi útgáfa af kartöflugratíni er rjómalaus. Þess í stað bökum við kartöflurnar upp úr kjúklingasoði og smjöri. Tilvalið meðlæti með jafnt kjöti sem fiski.

Við þurfum:

  • Kartöflur
  • 1 lauk, saxaðan
  • 2 hvítlauksrif, rifin
  • 30 g smjör
  • Kjúklingasoð
  • Timjan, ferskt

Flysjið kartöflurnar og skerið niður í þunnar sneiðar. Saxið laukinn, rífið hvítlaukinn og blandið þeim saman.

Raðið nú í eldfast fat til skiptis annars vegar kartöflusneiðum og timjanlaufum og hins vegar laukblöndunni. Hafið kartöflur í efasta laginu. Hellið nú sjóðandi heitu kjúklingasoði í fatið þannig að það nái upp í um þriðjung af hæð fatsins. Það er mikilvægt að hella ekki of miklu soði í í fatið því þá verða kartöflurnar að hálfgerðu mauki. Skerið smjörið í bita og setjið ofan á kartöflurnar.

Stingið fatinu inn í 200 gráðu heitan ofn og eldið í 30-40 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar vel eldaðar og soðið hefur að mestu gufað upp.

Deila.