Franskur estragonkjúklingur

Þessi franska uppskrift byggir á kröftugri sósu úr dökku kjúklingasoði sem við styrkjum með Dijon-sinnepi og vínediki og svo auðvitað fullt af estragoni.

 • 1 kjúklingur bútaður í tíu bita.
 • 1 dós tómatar
 • 1 dós tómataþykkni
 • 1/2 dl rauðvínsedik
 • 2 dl hvítvín
 • 1 laukur, saxaður
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 1 msk Dijon-sinnep
 • 1/2 dl matreiðslurjómi
 • 50 g smjör
 • Estragon
 • Graslaukur
 • Timjan

Byrjið á því að skera kjúklinginn í sundur. Takið vængina frá og hryggjarstykkið. Skerið í smærri bita.

Hitið olíu og smjör saman í potti og steikið vængina beinin úr hryggnum í um tíu mínútur. Bætið þá við saxaða lauknum og hvítlauknum og steikið í 3 mínútur í viðbót. Hellið þá hvítvíninu út í og sjóðið niður í tíu mínútur eða þar til um helmingar vökvans hefur gufað upp. Bætið þá tómataþykkninu og tómötunum út í ásamt 2-3 stilkum af estragon og 2-3 stilkum af timjan. Hellið um hálfum lítra af vatni í pottinn, hitið upp að suðu, lækkið þá hitann aðeins og látið malla undir loki í um hálftíma. Þá ætti soðið að vera orðið bragðmikið og gott. Síið í gegnum sigti og geymið. Þetta ættu að vera 4-5 dl af vökva.

Á meðan eldum við kjúklinginn en best er að gera það í góðum pottjárnspotti. Hið olíu og smjör í pottinum og steikið kjúklingabitana í um þrjár mínútur á hvorri hlið. Saltið og piprið og setjið inn í 200 gráðu heitan ofn í hálftíma. Hafið lokið á pottinum.

Takið pottinn út. Ef kjúklingurinn hefur verið feitur hefur nú safnast eitthvað af bráðinni fitu í pottinn. Hellið henni frá að mestu. Setjið pottinn á eldavélina og hellið edikinu í pottinn. Leyfið því að sjóða nær alveg niður og veltið kjúklingabitunum nokkrum sinnum í edikinu. Takið þá upp úr pottinum og haldið heitum. Setijð matskeið af Dijon-sinnepi í pottinn, hrærið og hellið síðan kjúklingasoðinu smám sama í pottinn. Bætið rjómanum út í og loks um 30 g af köldu smjöri í nokkrum áföngum. Leyfið sósunni að þykkna aðeins og setjið í lokin 2 msk af fínt söxuðu estragoni og 2 mask af söxuðum graslauk út í.

Setjið kjúklingabitana á fat eða diska og hellið sósunni yfir. Berið fram með Timjan-kartöflum.

Rautt eða hvítt gengur með þessu. Reynið hvítt Pinot Gris frá Alsace til dæmis frá Trimbach eða Hugel eða rautt Bordeaux á borð við Lamothe-Vincent.

 

Deila.